Í fótbolta er gaman

Fótbolti og aftur fótbolti. MYNDIR: JÓI SIGMARS
Fótbolti og aftur fótbolti. MYNDIR: JÓI SIGMARS

Það er óhætt að fullyrða að landinn sé heltekinn af fótboltahita þessa dagana en eins og allir vita er íslenska landsliðið á HM í Rússlandi og spila þar einmitt í dag sinn annan leik. Það verður líka nóg af fótbolta á Króknum um helgina en þá fer Landsbankamótið fram á íþróttasvæðinu á Sauðárkróki og nú fyrr í vikunni var samæfing yngri flokka Tindastóls, Smára og Neista á nýja gervigrasvellinum.

Samæfingin fór fram í sól og blíðu og þar voru að sjálfsögðu sýndir góðir taktar. Að æfingu lokinni voru síðan grillaðar pylsur við vallarhúsið. Jói Sigmars var á staðnum með myndavélina og tók þessar fínu myndir sem Feykir fékk góðfúslegt leyfi til að birta og reyndar má sjá enn fleiri myndir á FB-síðu stuðningsmanna knattspyrnudeildar Tindastóls.

Nú um helgina fer Landsbankamótið fram á Sauðárkróki en það er ætlað stúlkum í 6. flokki og heyrst hefur að það sé feykigóð þátttaka í ár. Leikið verður á 12 völlum á íþróttasvæðinu og þar af verða átta vellir á gervigrasinu og að sjálfsögðu verður kvöldvaka á laugardagskvöldinu þar sem Jón töframaður leikur við hvurn sinn fingur og þá verður Ingó (fyrrum Veðurguð) með gítarinn. Ef einhverjir fá ekki nóg af fótboltanum úti á völlunum þá er búið að koma fyrir HM-horni í íþróttahúsinu þar sem 250 gestir geta fylgst með leikjunum á stóru tjaldi.

Og fyrst minnst er á HM þá er kannski rétt að minna á – þó seint sé – að leikur Nígeríu og Íslands hefst kl. 15 í dag og þeir sem vilja horfa á leikinn utan heimilis ættu að geta fundið góðan stað fyrir sig og sína í Skagafirði því KK Restaurant og Grand-Inn sýna leikinn á Króknum, sömuleiðis Hótel Varmahlíð og Ketilás. Þó nokkrir vinnustaðir hafa ákveðið að loka í tilefni af þessum stórviðburði og nú er bara að hvetja strákana af krafti – áfram Ísland! 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir