Ísbjörn felldur við Hvalnes á Skaga í gærkvöldi

Karítas Guðrúnardóttir og Egill Þórir Bjarnason, ábúendur á Hvalnesi á Skaga. Mynd: KSE.
Á innfeldu myndinni er bjarndýrið fallið í valinn í Höfðanum þar sem þess varð fyrst vart. Mynd: KG
Karítas Guðrúnardóttir og Egill Þórir Bjarnason, ábúendur á Hvalnesi á Skaga. Mynd: KSE. Á innfeldu myndinni er bjarndýrið fallið í valinn í Höfðanum þar sem þess varð fyrst vart. Mynd: KG

Ísbjörn sem gekk á land við bæinn Hvalnes á Skaga var felldur seint í gærkvöldi, um leið og leyfi barst frá lögreglu, að sögn ábúenda á bænum. Um 500 metra frá Höfðanum þar sem hans varð fyrst vart voru heimalningar í girðingu og börn að leik. Haft var samband við vana skyttu, Jón Sigurjónsson í Garði í Hegranesi og kom hann þegar á vettvang og felldi dýrið í einu skoti úr um 130 metra færi.

Þau Karitas Guðrúnardóttir og Egill Bjarnason á Hvalnesi, voru í útreiðartúr seint í gærkvöldi þegar þau sáu ísbjörninn við girðingu skammt frá útihúsunum á bænum. „Við vorum í reiðtúr hérna á veginum þegar við sáum eitthvað hvítt þarna niður frá og héldum að það væri túnrolla sem hefði orðið eftir. Við vorum að rökræða hvort hún væri með eitt eða tvö lömb, þar sem okkur sýndist þetta nokkuð stórt, héldum kannski að þetta væri rolla með tvö lömb og þau lægju þarna í hnapp. “ sagði Karitas þegar blaðamaður Feykis heimsótti þau að Hvalnesi um hádegisbil í dag.

„Svo fannst okkur hún hreyfa sig svo undarlega og loks fór hún upp á afturlappirnar og reisti sig alveg upp. Þá lá það ljóst fyrir að þetta var engin kind, þannig að við tókum stökkið heim og létum smala börnunum og heimalningunum inn,“ segir Karítas enn fremur. Hún segir það hreina tilviljun að þau urðu bjarnarins vör, því þau voru óvenju seint á útreiðum þetta kvöld. Um 5-600 metra frá Höfða, sem er niðri við fjöruna fyrir neðan bæinn, er girðing við útihúsin og þar voru börnin á bænum, þau Bjarni 3 ára og Guðrún Elín 6 ára, að leika sér við heimalningana.

„Sögðu mér að koma börnunum inn“

„Börnin voru að bjóða heimalningunum góða nótt og ég var úti að taka myndir af fallegum regnboga sem sást í sólarlaginu,“ segir Elín, amma barnanna, sem einnig var stödd á bænum. „Ég skyldi ekkert hvað gekk á þegar Karítas og Egill komu á harðastökki heim og sögðu mér að koma börnunum inn.“ Elín segist þó strax hafa drifið börnin inn, þó hún hafi verið dálitla stund að átta sig á að ísbjörn væri raunverulega skammt frá bænum. Síðan hafi heimalningunum verið smalað inn og hundarnir lokaðir inni, eftir að hún hafði gert aðvart á nærliggjandi bæjum. Elín segir að börnin hafi strax áttað sig á að alvara var á ferðum, en haft mestar áhyggjur af því að ekki tækist að forða heimalningunum. 

„Þetta var stærsti bangsi sem ég hef séð,“ sagði heimasætan á bænum, Guðrún Elín þriggja ár, þegar blaðamann bar að garði. „Hann var stærri en mamma mín og þú! Ég var að snerta hann, en mér fannst tungan ekki flott,“.sagði hún ennfremur og bætti því við að birnan hefði átt „ísbjarnarbarn,“ en það hefði ekki verið með henni og engin mjólk í mömmunni. Egill bóndi gantast með að réttast væri að nefna birnuna í höfuðið á Elínu, móður sinni, enda sé hefð fyrir því að tala um að „það veiðist eða reki vel undan Elínu,“ og sambærileg málvenja tíðkist á ábæjum á Skaganum.

Að sögn Karítasar og Egils hringdu þau strax í vin sinn, Jón Sigurjónsson í Garði í Hegranesi, sem er þaulvön skytta og tók meðal annars þátt í að fella ísbjörn sem sást á Þverárfjalli árið 2008. „Jón hefur aldrei verið eins fljótur hingað og við vöktuðum björninn þar til leyfi fékkst frá lögreglunni,“ bætir Egill við. Virtist ísbjörninn fremur rólegur og forvitinn um umhverfið er hann rölti fram og aftur með girðingu skammt frá þar sem hann tók land. „Hann var líka mikið að velta fyrir sér þessum heyrúllum, ég veit ekki hvort hann hefur haldið að þetta væru ísjakar eða ísbjarnapartý,“ segir Karítas og hlær. Að sögn hennar og Egils hefði hann auðveldlega getað komist að börnunum og heimalningunum, enda hafi hann gert sig líklega til að nálgast bæinn. Karítas segir þetta hafa verið mjög óraunverulegt fyrst, þrátt fyrir nýlegar ísbjarnarkomur á Skaga. „Maður trúir því ekki að þetta komi fyrir sig.“

„Hann var búinn að vera á ráfinu, var þarna uppi á Höfðanum fyrst þegar við sáum hann og svo labbaði hann hérna með girðingunni. Við biðum eftir að við fengjum leyfi og fórum með fjörunni, pössuðum okkar bara að styggja hann ekki og halda okkur í hæfilegri fjarlægð,“ segir Egill, en tvær aðrar skyttur voru kallaðar á vettvang, auk þess sem bændur af nærliggjandi bæjum komu á staðinn. Ísbjörninn lagðist á Höfðann og  sneri baki í skytturnar. Ákvað Egill því að hrista olíubrúsa til að vekja athygli hans. Var Jón þá kominn í um 130 metra færi og felldi hann, sem fyrr segir, í einu skoti sem fór háls ísbjarnarins, sem reyndist vera birna, líklega komin á efri ár.

„Og svo kom bara ísbjörn!“

Eftir að birnan var felld var farið með traktor með ámoksturstækjum niður að Höfðanum og skytturnar, ásamt nágrönnum sem hafði drifið að, hjálpuðust að við að koma honum í traktorsskófluna og flytja heim á hlað. Þaðan var birnan flutt í kæligeymslu á Skagaströnd í nótt og síðan áfram til Reykjavíkur í dag. Heimilisfólkið á Hvalnesi er sammála um að það hafi verið hárétt ákvörðun að fella björninn, enda hefði getað reynst örðugt að finna hann aftur, hefði hann lagst til sunds. Elín, sem hefur ásamt eiginmanni sínum verið búsett á Reyðarfirði yfir veturinn undanfarin ár segir vinnufélaga sína hafa gantast með það hvað hún væri að fara á Skaga yfir sumarið, það væri svo mikið af ísbjörnum þar. „Og svo kom bara ísbjörn,“ segir hún og hlær og bætir svo við: „Það er hægt að grínast með þetta af því að allt fór eins vel og hægt var.“

Ekki liggur ljóst fyrir hversu langa vegalengd ísbjörninn hefur þurft að synda til að komast á land að Hvalnesi, en Karítas segir þau hafa spurnir af hafís ekki svo mjög langt frá landi. Þá syndi ísbirnir býsna hratt og láti sig auk þess reka með sjávarstraumum, en í víkinni þar sem birnan hefur tekið land er einmitt mikill rekaviður og því hafi straumurinn getað borið hana þangað. Birnan var vel á sig komin og talið að hún sé nokkuð gömul. Ekki var hægt að sjá hvort hún væri með hún en þau segja að ekki hafi virst vera mjólk í spenum hennar þó hægt hefði verið að sjá að hún hefði einhvern tímann haft hún á spena.

Myndirnar hér að neðan tóku Karítas Guðrúnardóttir á Hvalnesi og Björn Jóhann Björnsson, blaðamaður Morgunblaðsins, í gærkvöldi og nótt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir