Íslandsmeistaramótið í ísbaði í dag

Íslandsmótið í ísbaði verður á Blönduósi í dag. Mynd:Feykir.is
Íslandsmótið í ísbaði verður á Blönduósi í dag. Mynd:Feykir.is
Íslandsmeistaramótið í ísbaði verður haldið í sundlauginni á Blönduósi í dag klukkan 17:15 og verða keppendur sex.  Benedikt Lafleur mun kynna heilsugildi ísbaða og meistararitgerð sína Vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs. Svo verður keppt í því hver getur verið lengst ofan í ísbaði.
 

Á síðasta ári fór mótið fram í sundlaug Sauðárkróks og þá sigraði Sara Jóna Emilía en hún sat í ískarinu í 13:13 mínútur. Vatnið var við frostmark og karið fullt af ís. 

Í tilkynningu frá Benedikt Lafleur segir: „Sagan hefur sýnt okkur að bæði almenningur og fræðimenn, læknar og lífeðlisfræðingar í fremstu röð hafa nýtt sér köld böð til að leitast við að lækna ýmis mannanna mein og njóta vellíðunar og frískleika. Notkun sjávarbaða í lækningaskyni náði t.d. hámarki í Suður-Englandi og Suður-Frakklandi á 18.öld og bæði Dr. Kneipp og Ivanov nýttu sér köld böð til að lækna sjálfa sig og aðra. Nýlegar rannsóknir, bæði erlendar, (einkum í Finnlandi, af vetrarböðum), sem og rannsóknir og athuganir Benedikts af vettvangi sjávarbaða við Íslandsstrendur gefa vísbendingar um að regluleg dvöl í köldu vatni stuðli að: 

Minni streitu og auknum lífsgæðum - meiri frískleika og hreysti - bættri andlegri líðan - brennslu kaloría - linun krónískra verkja -og hraðari bata af líkamlegum áverkjum.

Stuðningsaðilar keppn­inn­ar eru Sund­laug­in á Blönduósi (Blönduósbær), Ísgel ehf., veit­ingastaður­inn B&S, Fisk­markaður­inn á Skaga­strönd og fisk­búðin Fisk á disk á Blönduósi. Sigurvegarinn fær  gler­styttu að laun­um en aðrir kepp­end­ur viður­kenn­ing­ar­skjal. Eins fá all­ir krakk­ar sem prófa að fara í ísbaðið viður­kenn­ing­ar­skjal.

ÍSGEL verður með kynningu á vörum sínum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir