Jákvæð rekstrarniðurstaða á Skagaströnd

Frá Skagaströnd. Mynd: KSE
Frá Skagaströnd. Mynd: KSE

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins Skagastrandar var jákvæð á árinu um 33,5 m.kr. í samanburði við 18,8 m.kr. neikvæða afkomu árið 2014. Þetta kemur fram í fundargerð sveitarfélagsins en ársreikningar voru teknir til seinni umræðu á sveitarstjórnarfundi í síðustu viku.

Í ársreikningi kemur fram að rekstrartekjur samstæðunnar voru 576,6 m.kr. en voru 525,5 m.kr. árið 2014 og hafa hækkað um 9,7% milli ára. Rekstrargjöld samstæðu námu 561,1 m.kr. en voru 560,2 m.kr. 2014. Tap var af rekstri A hluta fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld að fjárhæð 8,9 m.kr. en rekstrarniðurstaðan jákvæð um 2,9 m.kr.

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er 11,7 m.kr. betri en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir en áætluð rekstrarafkoma ársins var jákvæð um 21,9 m.kr. Eigið fé samstæðu sveitarfélagsins í árslok 2015 nam 1.224,0 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi, eiginfjárhlutfall samstæðu var 73,2% í lok árs 2015 en var 72,9% árið 2014.

Langtímaskuldir sveitarfélagsins námu 263,3 m.kr. og tilheyra þær eingöngu Félagslegum íbúðum. Veltufjárhlutfall samstæðunnar nam 13,06 en var 12,37 í árslok 2014.

Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi var veltufé frá rekstri samstæðunnar 70,9 m.kr. og handbært fé frá rekstri nam 79,2 m.kr. Engin ný lán voru tekin á árinu. Handbært fé samstæðunnar nam 490,7 m.kr. í árslok auk 142,4 m.kr. skammtímaverðbréfaeignar en handbært fé var 439,9 m. kr. í árslok 2014 og þá nam skammtímaverðbréfaeign 158,0 m.kr. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir