Jólatónleikar Skagfirska kammerkórsins

Skagfirski kammerkórinn.
Skagfirski kammerkórinn.

Skagfirski kammerkórinn verður á jólaróli nú um helgina og heldur árlega jólatónleika sína á þremur stöðum í Skagafirði á föstudag og laugardag. Í Hóladómkirkju á föstudag klukkan 20:00, í Sauðárkrókskirkju á laugardag klukkan 16:00 og í Miklabæjarkirkju á laugardag klukkan 20:00. Aðgangur á tónleikana er ókeypis.

Skagfirski Kammerkórinn var stofnaður árið 2000 af Sveini Arnari Sæmundssyni. Kórfélagar eru í kringum 20 og starfa nokkrir stofnfélaganna ennþá með kórnum. Kórinn leggur áherslu á að syngja a capella eða án undirleiks og hefur tekist á við ýmsar skemmtilegar útsetningar, bæði á þjóðlögum, erlendum sem innlendum, svo og frumsömdum lögum.

Starfsár kórsins er viðburðaríkt en frá upphafi hefur hann staðið fyrir dagskrá á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, í samvinnu við 7.bekk Varmahlíðarskóla. Þetta ár var Kór eldri borgara sérstakur gestur þar.  Aðrir fastir viðburðir eru jólatónleikar og vortónleikar á sumardaginn fyrsta. 
Á jólatónleikum að þessu sinni fær kórinn sér til fulltingis organistann Rögnvald Valbergsson og er hluti efnisskrárinnar sunginn við orgel og píanóundirleik. Sérstakir gestir í ár verða ungar og  afar efnilegar söngkonur, fimm stúlkur sem allar eru í einkatímum í söng hjá kórstjóranum, Helgu Rós Indriðadóttur, og eru sumar þeirra einnig í Barnakór Tónadans. Nöfn þeirra eru Áróra Ingibjörg Birgisdóttir, Emilía Kvalvik Hannesdóttir, Hallgerður H. V. Þrastardóttir, Matthildur Ingimarsdóttir og Ragnhildur Sigurlaug Guttormsdóttir, 
Kórfélagar horfa með sérstakri tilhlökkun til næsta árs en kórinn er að undirbúa samstarf við Kammerkór Norðurlands um flutning á verkinu Magnificat eftir John Rutter.  Verkefnið var eitt af 100 verkefnum, og eitt af þremur í Skagafirði, sem fengu styrk úr fullveldissjóði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir