Kæru Skagfirðingar

Tilefni þessa stutta pistils er hvatning. Hvatning til ykkar sem hafið með umönnun barna að gera. Börnin eru það dýmætasta í þessum heimi. Upp á þau þarf að passa. Samvistir við foreldra og ástvini skipta miklu fyrir eðlilegan þroska og andlega vellíðan barna. Því er vert að huga að því hvernig hægt sé að auka þessar samvistir eins og hægt er. Ég vil hér kasta fram einni hugmynd.

Nú blasir verslunarmannhelgin við handan við hornið. Þessi helgi er viðkvæm fyrir marga og því tilvalin fyrir fjölskyldur að þjappa sér saman og fara fallega með lífið. Síðastliðin 20 ár hefur unglingalandsmót verið haldið þessa helgi á vegum UMFÍ. Nú er svo komið að heil kynslóð hefur alist upp við það að fara á Unglingalandsmót og margir vilja alls ekki missa af þessu þrátt fyrir að vera komnir af aldri. Það sem mestu skiptir þar eru minningarnar sem skapast í samverunni. Að upplifa stemmningu sem sameinar alla í því markmiði að eiga góðar stundir við leik, keppni og skemmtun.

Næstkomandi verslunarmannhelgi fer fram Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum. Unglingalandsmót UMFÍ eru vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin eru árlega. Mótin eru ætíð miðuð við fjölskyldufólk og mikið er gert til þess að tryggja að allir skemmti sér vel, saman. Keppni er fyrir þá sem eru á aldrinum 11 - 18 ára. Allir geta tekið þátt, óháð því hvort viðkomandi sé í einhverju íþróttafélagi eða ekki. Ýmis konar afþreying er svo í boði fyrir systkini, foreldra og aðra yfir daginn að ógleymdum kvöldvökunum þar sem allir koma saman.

Keppnisgreinar eru fjölbreyttar svo allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Nú er bara að safna í lið eða reyna fyrir sér í einhverju nýju. Greinarnar eru: Boccia - Bogfimi - Fimleikalíf - Fjallahjólreiðar - Frisbígolf - Frjálsar íþróttir - Glíma - Golf - Götuhjólreiðar - Hestaíþróttir - Knattspyrna - Kökuskreytingar - Körfuknattleikur - Motocross - Ólympískar lyftingar - Rathlaup - Skák - Stafsetning - Strandblak - Sund - UÍA þrekmót - Upplestur og Íþróttir fatlaðra.

Mótið hefst föstudaginn 4. ágúst og lýkur um miðnætti sunnudaginn 6. ágúst. Þó er sú undantekning að keppni í golfi fer fram á fimmtudeginum 3. ágúst.  Skráning á mótið fer fram á heimasíðu UMFÍ og hefst 1. júlí. Þátttökugjald er kr.7.000.- og er best að greiða það við skráningu. UMSS mun greiða keppnisgjöld niður um 3500kr fyrir sína krakka. Lokað er fyrir skráningu um miðnætti sunnudagsins 24. júlí.

Allir sem hafa greitt keppnisgjaldið geta tekið þátt í öllum viðburðum án nokkurs annars kostnaðar. Keppa má í eins mörgum keppnisgreinum og hver og einn vill og getur.

Ókeypis er fyrir þátttakendur og fjölskyldur á tjaldsvæði mótsins. Sérstakar reglur gilda á tjaldsvæðinu sem öllum ber að fara eftir og á það ekki síst við um neyslu áfengis. Aðgangur að rafmagni á tjaldsvæðinu er fyrir hendi en rukkað er lágmarksgjald kr. 4.000 - fyrir alla helgina.

Vil ég hvetja alla krakka, vini, vinkonur, foreldra, forráðamenn, ömmur, afa, frændur, frænkur í Skagafirði að taka sig saman og halda til Egilsstaða um verslunarmannahelgina í góðra vina hóp. UMSS hefur ætíð sent góðan fjölda keppenda á þetta mót og er þetta fastur liður í lífi margra fjölskyldna í Skagafirði. Nú vonum við að það bætist í hópinn. Við viljum minna á að einstaklega flottar rauðar þægilegar bómullar hettupeysur eru til sölu á Skrifstofu UMSS Víðigrund 5 fyrir alla þá sem fara og alla sem langar að skarta svona flottri peysu. Þær má merkja með UMSS, sínu aðildarfélagi (t.d U.M.F Hjalti) og setja uppáhalds íþróttagreinina sína á ermina. Endilega pantið ykkur peysu sem fyrst.

 Gaman væri að sjá rauðan samstilltan hóp ganga fylktu liði inná völlinn á Egilsstöðum 4. ágúst næstkomandi.

 Góða skemmtun!

Arnrún Halla Arnórsdóttir

Formaður UMSS

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir