Kæru Skagfirðingar, kjósið heiðarleika

Nú er tækifæri til breytinga í Skagafirði. Of lengi hafa stjórnmálin snúist um skiptingu á völdum og greiðum milli manna. Ef þú klórar mér þá klóra ég þér hefur verið mottóið undanfarin tvö kjörtímabil og þar er enginn af forystumönnum hinna hefðbundnu flokka undanskilinn. Á öllum framboðslistum er að finna traust og gott fólk og margir þar vinir mínir og samstarfsfélagar en leiðtogar flestra flokkanna þurfa hvíld.

Það þarf ný vinnubrögð í Skagafjörð þar sem heiðarleiki er lykilorðið en það orð þekkja ekki allir oddvitar gömlu flokkanna. Lífið er ekki sýndarveruleiki, lífið er hvernig við sjáum fjölskyldum okkar farborða, við hvers konar aðstæður börnin okkar vaxa og þroskast.

Framkvæmdir við fótboltavöll í skiptum fyrir skíðalyftu, eða starf  fyrir oddvita VG á náttúrústofu verða að aðalatriðum þegar völdin skipta orðið meiru en fólkið.  Það lifir enginn á sýndarveruleika heldur á þeim launum sem viðkomandi fær til að kaupa sér mat, klæði, húsnæði os.frv. Þarna hafa sveitarstjórnarmenn síðustu ára brugðist. 

Ekki hefur tekist að skapa ný störf í skagafirði og fjölga þannig eggjunum í körfunni og treysta fjölbreytt atvinnulíf. Tilraunir sveitarstjórnarinnar hafa runnið út í sandinn vegna skorts á getu til að fylgja eftir tækifærum sem þeim eru rétt upp í hendurnar. Störf voru flutt í Skagafjörð, sendinefnd tekin með til Japans, NV nefndin skilaði ýmsum hugmyndum þar sem oft skorti á getu forsvarsmanna sveitarfélagsins til að fylgja þeim eftir. Dæmi um slíkt er uppbygging á aðstöðu Landhelgisgæslunnar í Skagafirði en dráttur á samningsdrögum frá sveitarfélaginu varð til þess að það mál dagaði uppi.

Áfram mætti telja. Það er nefnilega ekki nóg að vera töffari með borða á öxlum ef ekki er framkvæmt og málum fylgt eftir.

Forystumenn sveitarfélagisns síðustu ár hafa stundum minnt á dýrin í sögunni um Litlu gulu hænuna. “Ekki ég” segja þeir en vilja svo éta kökuna rétt fyrir kosningar.

Ég hef áhyggjur af mínu gamla héraði þar sem ég nú kýs líklega í síðasta skiptið. Undiraldan er mikil vegna leyndarhyggju og klíkuskapar og fólk telur sér mismunað eftir því hvar þar býr. Slíkt á ekki að eiga sér stað í héraði þar sem allt er hægt. Lausnin er að breyta, rjúfa samtrygginguna í sveitarstjórn sveitarfélagsins.

Ég fór því og kaus breytingar fyrir mína heimabyggð.

Gunnar Bragi Sveinsson. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir