Kjúklingaborgarar með nan-brauði og tzatziki sósu og auðveldur eftirréttur

Matgæðingarnir Hrund og Helgi. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Hrund og Helgi. Mynd úr einkasafni.

„Það er alltaf gaman að bregða út af vananum og fá sér aðeins öðruvísi borgara. Hér er uppskrift sem aldrei klikkar og allir ættu að smakka. Setjum með auðveldan eftirrétt og því er ekkert til fyrirstöðu að græja þetta strax,“ segja matgæðingarnir Hrund Pétursdóttir og Helgi Sigurðsson á Sauðárkróki í 42. tölublaði Feykis 2015..

Aðalréttur
Kjúklingaborgarar með nan-brauði og tzatziki sósu

Borgararnir:
650 g kjúklingabringur
5 vorlaukar
1½  msk engiferrót
2 stk.hvítlauksrif
1½ msk.cummin
2 tsk.paprikuduft
1,2 tsk.sítrónusafi
2 msk. fersk steinselja
1 tsk. salt
½ - 1 egg
1 dl brauðmylsna
dass af pipar

Aðferð:
Allt sett í matvinnsluvél og maukað. Skerið engiferrótina, kjúklingabringurnar og vorlaukinn í bita áður en það er sett í matvinnsluvélina. Geymt í kæli í u.þ.b. ½ - 1 klst. áður en borgararnir eru steiktir. Má alveg vera lengur.

Nan-brauð:
1 pk. þurrger
2 bollar volgt vatn
¼ bolli sykur
4 - 4½ bolli hveiti
2 tsk. salt
3 msk. smjör
1 egg 

Aðferð:
Setjið volgt vatn í skál og stráið þurrgeri yfir. Látið standa í nokkrar mínútur þar til gerið hefur leyst upp og er farið að freyða aðeins. Bætið restinni út í  (geymið u.þ.b. ½ bolla af hveiti) og hnoðið saman í höndum eða hrærivél í nokkrar mínútur.  Látið hefast. Fletjið út þunn brauð og steikið á pönnu við hæsta hita eða skellið á grillið. Oft á fólk erfitt með að ná rétta „taktinum“ þegar gera á nan-brauð en þá viljum við benda þeim á að skella sér á youtube, þar eru frábær kennslumyndbönd.
Fyrir þá sem vilja hafa nan-brauðin ennþá meira djúsí þá er gott að vera búinn að bræða smjör, pressa út í það hvítlauk og smyrja á brauðið um leið og það kemur úr ofninum. 

Tzatziki sósa:
2 dl grísk jógúrt
½ agúrka
1 tsk. salt
1-2 hvítlauksrif (pressuð)
½ msk. sítrónusafi
1 msk. ólívuolía 

Aðferð:
Agúrkan fræhreinsuð og rifin niður. Allt sett í skál og blandað vel saman. Gott að gera sósuna nokkrum klst. áður og geyma í kæli. Ferskt salat með fetaosti er ómissandi með borgurunum og ef fólk vill hafa franskar eða aðra sósu þá er allt leyfilegt.


Auðveldur eftirréttur: 

Grísk jógúrt, magn fer eftir fjölda
ferskir ávextir og ber
fljótandi hunang 

Aðferð:
Jógúrtin þeytt lítillega. Hún fær aðeins léttara yfirbragð og svo lítur hún bara betur út í skálinni. Þetta er hægt að bera fram sitt í hvoru lagi þannig að hver og einn geti valið. Einnig hægt að setja jógúrtið í litlar skálar og skreyta með ávöxtum, berjum og góðu fljótandi hunangi.

 

Verði ykkur að góðu!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir