Kröfur í þrotabú Sjávarleðurs 420 milljónir

Skrautleg fiskroð. Mynd Atlantic Leather.
Skrautleg fiskroð. Mynd Atlantic Leather.

Á Vísi.is er sagt frá því að lýstar kröfur í þrotabú Sjávarleðurs á Sauðárkróki hafi numið 419,7 milljónum króna en einungis 59 milljónir hafi fengist greiddar. Fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta þann 30. júní á seinasta ári og að skiptum hafi lokið 28. mars síðastliðinn. Eignir félagsins voru fasteignin Borgarmýri 5 á Sauðárkróki og veðsettur lager og vörubirgðir. Fasteigninni var ráðstafað til veðhafa á veðhafafundi auk þess sem samþykkt var tilboð í lager og birgðir á veðhafafundi þannig að af eignum félagsins greiddust einungis veðkröfur. Lýstar veðkröfur námu 296 milljónum króna og fengust eins og áður segir 59 milljónir upp í þær.  

Starfsemi Sjávarleðurs fór aftur af stað eftir að nýir eigendur komu að borðinu og starfa þar 16 manns í dag. Framleiðslan samanstendur að sútuðum fiskroðum og loðgærum en mokkaskinn sem áður var stór hluti framleiðslunnar eru ekki framleidd lengur.

Að sögn Gunnsteins Björnssonar, forstjóra fyrirtækisins, gengur reksturinn þokkalega en eins og hjá mörgum útflutningsfyrirtækjum er gengi íslensku krónunnar ekki hagstætt eins og staðan er í dag. Hrágærusala hefur farið af stað en Gunnsteinn segir verðin lág í alþjóðlegum samanburði en "er á meðan er".

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir