Leitað að Útsvarskeppendum

Lið Skagafjarðar í Útsvari veturinn 2015-2016, þau Berglind Þorsteinsdóttir, Guðrún Rögnvaldardóttir og Indriði Þór Einarsson. Mynd: Ruv.is.
Lið Skagafjarðar í Útsvari veturinn 2015-2016, þau Berglind Þorsteinsdóttir, Guðrún Rögnvaldardóttir og Indriði Þór Einarsson. Mynd: Ruv.is.

Sveitarfélagið Skagafjörður leitar nú logandi ljósi að fjölkunnugum konum og körlum til að skipa lið Skagafjarðar í spurningaþættinum Útsvari í vetur. Á Facebooksíðu sveitarfélagsins er að finna svohljóðandi spurningu:

"Veist þú um fjölfróðan einstakling, eins konar gangandi alfræðiorðabók, sem býr í Skagafirði eða er af skagfirskum ættum og er tilbúin(n) til að vera fulltrúi Sveitarfélagsins Skagafjarðar í þættinum Útsvari í Sjónvarpinu í vetur? Ef svo er, sendu okkur endilega ábendingu um það í skilaboðum hér á facebook-síðu sveitarfélagsins."

Nú er því um að gera fyrir þá sem gaman hafa af að láta reyna á kunnáttu sína og eru þokkalega vel að sér á mörgum sviðum að freista þess að komast í liðið.

Hinn sívinsæli spurningaþáttur, Útsvar, hefur göngu sína á ný þann 15. september í haust. Þegar frá var horfið síðastliðið vor var ljóst að spyrlarnir tveir, þau Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir,  sem stjórnað hafa þættinum frá upphafi, myndu hætta með þáttinn enda búin að stýra honum síðustu tíu ár. Það eru þau Guðrún Dís Emilsdóttir og Sólmundur Hólm sem leysa þau af hólmi . 

„Mér líst ótrúlega vel á þetta. Ég er búinn að bíða mjög þolinmóður eftir rétta tækifærinu í sjónvarpi. Ég er búinn að þurfa að halda kjafti í allt sumar um þetta, ég hef bara getað sagt allra nánustu frá þessu, “ segir Sólmundur í samtali við RÚV nú á dögunum. Hann segir það mikinn heiður að fá að stökkva inn í jafn stóran þátt og Útsvar sem hafi átt mikilli velgengni að fagna. „Við Gunna nálgumst þetta verkefni fyrst og fremst af viðringu fyrir þeim sterka grunni sem Útsvarið byggir á.“ Aðdáendur Útsvarsins geta kynnt sér málið betur í umfjöllun um þáttinn á heimsíðu RÚV

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir