Málþing um riðuveiki

Annað kvöld 17. janúar klukkan 20:00 verður haldið í Miðgarði í Varmahlíð málþing um riðuveiki. Meðal fyrirlesara verða Stefanía Þorgeirsdóttir líffræðingur á Keldum, Sigrún Bjarnadóttir sérgreinadýralæknir sauðfjár- og nautgripasjúkdóma auk Jóns Kolbeins Jónssonar héraðsdýralæknis Norðvesturumdæmis.

„Við verðum með fyrirlestra varðandi arfgerðir, arfgerðargreiningar, smitleiðir riðu, rannsóknir sem hafa verið gerðar varðandi riðu. Svo er eitthvað fleira sem verður rætt og fólki er frjálst að spyrja spurninga,“ segir Jón Kolbeinn.

Málþingið er haldið að frumkvæði Félags sauðfjárbænda í Skagafirði og Búnaðarsambandi Skagfirðinga og segist Merete Rabölle formaður FSS vonast til að sjá sem flesta sem málið varði af Norðurlandi vestra.

En hvað er riðuveiki í sauðfé?

Á Vísindavefnum segir að Riðuveiki eða riða (e. scrapie) í sauðfé sé mitandi sjúkdómur í heila og mænu, kvalafullur og langvinnur. „Algengast er að kindur veikist 1½ til 4 ára en þó eru dæmi um riðu hér á landi í 7 mánaða gömlu lambi og 14 vetra á. Riða leggst misþungt á ólíkar arfgerðir sauðfjár. Skemmdir sem verða í heilanum leiða til einkenna frá taugakerfi svo sem ótta, öryggisleysis og fælni. Oft sést og finnst hárfínn titringur eða skjálfti og tannagnístur heyrist nær alltaf í riðuveikum kindum. Fyrir kemur að riðukindur sjái illa, þær gangi á og beri framfætur hátt. Oft ber á slettingi í gangi, lömun eða þróttleysi. Kindurnar geta snarast um koll ef tekið er í horn. Oftast ber á vanþrifum þegar líður á sjúkdóminn.“

Þrátt fyrir miklar rannsóknir vantar enn á þekkingu um riðuveiki og vísindalega staðfestingu á ýmsu, sem reynslan hefur kennt þannig að sjúkdómsvaldurinn eða smitefnið er ekki að fullu þekkt. Samkvæmt Vísindavefnum er ekki hægt að rækta það, þar sem það er ótrúlega lífseigt, þolir langa suðu, útfjólublátt ljós, öll helstu sótthreinsiefni og virðist geta lifað árum saman í umhverfinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir