Margar íbúðir í byggingu á Hvammstanga

Hvammstangi. Mynd: Visithunathing.is
Hvammstangi. Mynd: Visithunathing.is

Mikil eftirspurn er nú eftir íbúðalóðum á Hvammstanga eftir langt hlé. Rætt var við Guðnýju Hrund Karlsdóttur, sveitarstjóra í Hunaþingi vestra, í hádegisfréttum Ríkisútvarps í gær og segir hún að síðasta árið hafi mörgum lóðum verið úthlutað en ekki hefur verið byggt íbúðarhús á Hvammstanga í tæpan áratug.

Guðný segir að hlutirnir gerist hratt þessa dagana. „Það eru 18 lóðir sem hefur verið úthlutað og þar af eru flestir annaðhvort byrjaðir, eða búnir að skila inn teikningum. Eru bara í startholunum." 

Eftir að gatnagerðargjöld voru felld niður á lóðum sem staðið höfðu tilbúnar frá árinu 2009 hafa flestar þeirra selst og nú eru hafnar framkvæmdir við nýja götu þar sem þegar er byrjað að byggja. „Þetta er bæði fólk sem hefur flutt hingað á síðustu árum og svo er þetta fólk sem hefur verið inni á ættingjum. Og fólk sem hefur líka flutt heim, sem er uppalið hérna," segir Guðný.

Hún telur margar ástæður vera fyrir þessari þróun, m.a. að aukin bjartsýni ríki í samfélagin og skortur sé á leiguhúsnæði. Uppgangur í ferðaþjónustu hafi einnig þau áhrif að fyrirtæki byggi íbúðir fyrir starfsfólk sitt. Einnig fari verð á notuðu húsnæði hækkandi og þannig skapist einhvers konar jafnvægi milli þess sem fólk fær fyrir húsnæði sem það selur og þess sem kostar að byggja. „Þannig að ég á ekki von á öðru heldur en að þetta haldi áfram, þetta sé byrjunin," sagði Guðný Hrund í samtali við RÚV í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir