Margir tóku þátt í íþróttum í fyrsta sinn á Landsmótinu

Auddi og Steindi skemmtu á Landsmóti. Mynd:FE
Auddi og Steindi skemmtu á Landsmóti. Mynd:FE

„Landsmótið á Sauðárkróki var sannkölluð íþróttaveisla. Við tókum stóra ákvörðun um að breyta Landsmótinu sem hafði verið haldið í meira en 100 ár í nánast óbreyttu formi. Það var frábært að sjá og heyra viðbrögð fólks við breytingunni. Það er alveg ljóst að framtíðin er fólgin í því að vinna frekar með þessar breytingar,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Landsmót á vegum UMFÍ fór fram á Sauðárkróki dagana 12. – 15. júlí. Það var í fyrsta sinn haldið með nýju og breyttu sniði. Mótið var opið fyrir alla 18 ára og eldri sem hafa gaman af því að hreyfa sig og stunda íþróttir.  Þátttakendur gátu valið úr tæplega 40 greinum allt frá nýjungum á borð við körfubolti 3:3, biathlon, brennó og fjallahjólreiða, bogfimi og pútts. Stígvélakast var að sjálfsögðu á sínum stað á síðasta degi mótsins.

UMFÍ mætir þörfum fólks

Rúmlega 1.300 þátttakendur voru skráðir til leiks í ýmsar greinar á Sauðárkróki um helgina og var úr nægu að velja. Ætla má að nokkuð þúsund manns hafi fylgt með þátttakendum og var mótið einkennandi fyrir allan Sauðárkrók um helgina. Alla dagana voru íþróttir í boði á daginn og í gærkvöldi var skemmtikvöld með Geirmundi Valtýssyni og Pallaball á eftir sem tókst gríðarlega vel.

Auður er hæstánægð með það hvernig mótið tókst.

„Við eigum auðvitað eftir að meta mótið og breytinguna á því. En við fyrstu sýn virðast flestir þátttakendur hæstánægðir. Margir voru að taka þátt í íþróttum í fyrsta sinn. Það eru góðar fréttir enda er Landsmótið liður í stefnu UMFÍ að koma til móts við þarfir fólks sem leitar eftir fjölbreyttri hreyfingu,“ segir hún.

 

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir