Nemendur Húnavallaskóla vinna að fullveldisverkefni

Nemendur Húnavallaskóla í heimsókn í Heimilisiðnaðarsafninu. Mynd: Heimasíða Húnavallaskóla.
Nemendur Húnavallaskóla í heimsókn í Heimilisiðnaðarsafninu. Mynd: Heimasíða Húnavallaskóla.

Húnavallaskóli er þátttakandi í verkefni á vegum Textílseturs Íslands sem hefur það að markmiði að auka þekkingu og innsýn nemenda í söguna, samfélagið, fullveldishugtakið og velta fyrir sér mikilvægi fullveldisins og prjónaskapar fyrir okkur Íslendinga. Jafnframt er þekking nemenda á prjóni og mikilvægi þess þjóðararfs í sögu þjóðarinnar aukin. Frá þessu er sagt á vef Húnavallaskóla.

Verkefnið felst í því að nemendur vinna verk með tilvísun í fullveldisafmælið þar sem prjón er nýtt sem verkfæri. Notuð verður ull í fánalitunum og prjónaðir bútar sem settir verða saman í teppi. Verkið verður til sýnis á Prjónagleði 2018 sem haldin verður dagana 8.-10. júní á Blönduósi en að því loknu mun það prýða súlu í Leifsstöð.

Jóhanna E. Pálmadóttir, forstöðumaður Textílsetursins, heimsótti nemendur 4.-8. bekkjar í síðustu viku og hóf verkefnið formlega. Allir nemendur skólans geta tekið þátt í verkefninu.

Einnig er sagt frá því á vef Húnavallaskóla að í síðustu viku hafi nemendur í 4. og 5. bekk farið í árlega heimsókn í Heimilisiðnaðarsafnið þar sem þeir fengu leiðsögn og fræðslu um safnið ásamt því að spreyta sig við að vefa, kemba og spinna ull.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir