Netverslanir með tískufatnað á Íslandi

Íslenskar netverslanir
Íslenskar netverslanir

Það að búa í litlu bæjarfélagi hefur bæði kosti og galla en með tilvist internetsins stækkaði heimurinn mjög mikið fyrir þá sem hafa lært að kveikja á tölvunni og tengjast netinu. Það að kaupa vöru og láta senda sér heim varð allt í einu mjög auðvelt. Mikið úrval er að erlendum netverslunum og flesir kannast við hann Alí vin minn (www.aliexpress.com) og það getur verið mjög skemmtilegt að versla frá honum, allt svo ódýrt, en þeir sem hafa prófað að panta fatnað geta eflaust komið með fyndnar sögur, því í flestum tilvikum er hann hannaður á asískt fólk sem passar auðvitað enganvegin á okkur Íslendinga.

Það hefur reyndar orðið mikil gróska í netverslunum hér á landi seinstu ár en það vantar mjög mikið upp á í flóruna tengt fatnaði, miðað við hvað er að gerast erlendis. Eftir að hafa kynnt mér hverjar séu helstu fatanetverslanir landsins og þjónustuna á bak við hverja og eina, þá verð ég að segja að við eigum langt í land, miðað við aðra vöruflokka eins og t.d skart, snyrti- og heimilisvörur.

Frábært að sjá netverslanir með stærri stærðirnar

Ég fann þrjár netverslanir sem eru að bjóða upp á kvenfatnað í stærri stærðum. En hér á landi er stór hópur af flottum konum sem nota fatastærðir sem eru hreinlega ekki í boði í all mörgum verslunum í dag og mörg merki framleiða ekki stærra en XL eða 44. En það eru, sem betur fer, alltaf að koma ný merki á markaðinn sem einblína á að framleiða bara fatnað fyrir þær konur sem nota stærri stærðir, því auðvitað langar þeim að geta klætt sig smart og smekklega eins og allar hinar. Þetta eru  www.curvy.iswww.momo.is og www.tiskuhus.is  

CURVY er með fatnað í stærðunum 14-28, (14 samsvarar L eða 42) ásamt skarti og beltum. Þær fá einnig einstaka vörur upp í stærð 32 og skó upp í 33. Verslanirnar Belladonna og My style hafa sameinast í netverslun undir slóðinni www.tiskuhus.is sem býður  upp á kvenfatnað í stærðunum 12 og upp í 28. MOMO býður svo upp á fjölbreyttan og fallegan fatnað alveg frá stærðunum 8 og upp í 26.

Allar þessar þrjár netverslanir eru með mjög góðar myndir af vörunum, góðar lýsingar þar sem gefið er upp hvaða efni er í flíkinni, hversu síð hún er og stundum góð „tips“ um hvað væri sniðugt að nota með. Þetta er allt fatnaður sem hentar bæði ungum stúlkum og konum á öllum aldri. Ég mæli því eindregið með að skoða úrvalið hjá öllum þessum verslunum.

NTC hf með stærstu íslensku fatanetverslunina

Það eru eflaust margir farnir að halda að ég fái borgað fyrir að auglýsa fyrir NTC hf en svo er nú ekki. Eftir að hafa unnið hjá þeim í um tíu ár þá er svolítið erfitt að sniðganga það sem maður þekkir best. En NTC hf rekur 15 verslanir og það væri alveg geggjað, fyrir landsbyggðartúttuna mig,  ef þeir væru með allt vöruúrvalið sitt úr öllum verslununum í boði á www.ntc.is en svo er því miður ekki en þetta er á mjög góðri leið. En vonandi verður það þannig í framtíðinni, mér til mikillar gleði, því eins margar og verslanirnar eru þá er vöruúrvalið eftir því í búðunum. Þessi netverslun er mjög flott upp sett með góðum myndum og er hugsanlega stærsta íslenska fatanetverslunin í dag og er því að finna ágætt úrval af bæði fatnaði og skóm á dömur og herra á öllum aldri.

Stærsta skónetverslun landsins er án efa www.skor.is því vöruúrvalið er úr búðunum; Skór.is, Kaupfélagið, Ecco, Steinar Waage, Air og Toppskórinn. Markmiðið síðunnar er að bjóða upp á fjölbreytt úrval af skóm og fylgihlutum fyrir alla fjölskylduna og er þarna á ferðinni ótrúlega flott netverslun með topp þjónustu.  

Netverslanir sem bjóða einna helst upp á kvenfatnað í stærðunum small, medium og large (small samsvarar 10 og 36) og einstaka vörur í „one size“ eru að verða all nokkrar en auðvitað er mismikið lagt í þær hvað varðar myndir, lýsingar, vöruúrval og áhersluatriðin er misjöfn. Þetta eru engu að síður flott framtök og mikið af fallegum fatnaði. www.milano.iswww.junik.iswww.mania.is - www.lolita.iswww.coralverslun.iswww.einvera.is - www.dion.is.

Íslensk hönnun fer ekki fram hjá neinum og það er svo frábært hvað margir eru að gera góða hluti bæði hér heima og erlendis. Flest allir virðast selja vöruna sína á Facebook og margir eru komnir með heimasíður en mjög fáir með netverslun. Þær síður sem ég fann eru; www.systurogmakar.iswww.juniform.is - www.kronkron.com - www.madebyshe.is - www.kioskreykjavik.is og svo www.andrea.is

Ég er eflaust að gleyma einhverjum sem eiga vel heima í þessum pistli, en ég get sagt ykkur að sumar netverslanirnar var ekki auðvelt að finna, en mér þykir alveg ótrúlega sorglegt hvað það eru fáar netverslanir hér á landi sem eru að bjóða upp á tískufatnað. Það væri því gaman ef verslanir eins og Jack&Jones, Vila, Vero Moda, Lindex, Zara, Top Shop og margar aðrar tengdar erlendum fatakeðjum myndu opna íslenskar netverslanir, því á bak við allar þessar keðjur eru erlendar netverslanir en þær senda bara ekki til Íslands. Það kom mér því mjög á óvart að sjá að www.next.is býður upp á að senda hingað heim. Eini gallinn er að það er ekki hægt að velja íslenskt tungumál en ef þú kannt ensku þá ættir þú að fara leikandi með að panta frá þeim. Þarna er að finna allt milli himins og jarðar fyrir dömur, herra, börn og skó á alla fjölskylduna.  En það þarf að muna eitt, þú borgar fyrir vöruna í evrum og þeir senda hana að utan þannig að þú þarft að gera ráð fyrir að borga tolla og gjöld.                            

Til að auðvelda reikningsdæmið er best að fara inná Tollur.is https://www.tollur.is/einstaklingar/tollamal/reiknivel/  og skoða endanlegt verð á vörunni þegar hún er komin til landsins því oft á tíðum er þetta ekkert mikið ódýrara en að kaupa hérna heima.

Sumar netverslanir bjóða upp á endurgreiðslur

En það sem er svo þægilegt við að kaupa vöru í gegnum netverslanir, en ekki facebook síður, er að það er hægt að ganga frá greiðslu strax með millifærslu, kortum eða netgíró án þess að eiga nokkur samskipti við fólk. Netgíró eða Gíró 15 er nýjasti greiðslumöguleikinn en þá er hægt að fá sendan  greiðsluseðil í heimabankann og þar greiðir maður innan 15 daga án þess að fá vexti. Mismunandi er hvort sendingarkostnaður sé greiddur af sendanda eða kaupanda en eðlilegast þætti mér að söluaðilinn tæki þann kostnað á sig til að auka þjónustuna á bak við síðuna. Það er ekkert óeðlilegt við það að búðir bjóði upp á 14 daga skilafrest því Neytendasamtökin mælast með því að verslanir noti þann frest en þá virðist vera að aukast að boðið sé upp á endurgreiðslur, sem er frábært, því auðvitað geta allir lent í því að panta eitthvað sem virkar öðruvísi á manni sjálfum en á mynd. Þá er frekar fúlt að þurfa að sætta sig við að fá inneign sem er örugglega erfitt að nota aftur í gegnum netverslunina og þá þarf maður að gera sér ferð í sjálfa búðina til að getað notað hana.

Það er svo annað sem verslunareigendur þurfa að fara að gera sér grein fyrir, það er að mörgum þykir bæði erfitt og leiðinlegt að fara inn í búðir og svo enn aðrir sem vinna þannig vinnu að þeir komast ekki. En netverslanir eru ekki með opnunartíma, eða jú, það er hægt að versla 24 tíma sólarhringsins sem er algjör snilld. En ég verð að viðurkenna að ég er ekkert rosalega hissa á að margir versli af erlendum netsíðum þegar úrvalið hér á landi er af skornum skammti. Þetta er samt fín byrjun hjá okkur og við getum stundum verið svolítið sein að taka við okkur hérna á litlu eyjunni.  En eitt er víst að allir þurfa að klæða sig hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Það væri því hagur allra ef að verslunareigendur myndu hysja upp um sig buxurnar og koma sér inn í 21. öldina og bjóða upp á netverslanir og koma á móts við kúnnann með góðri þjónustu því það er hún sem er besta auglýsingin sem verslanir fá. Góð þjónusta!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir