Nokkur orð um nærgætni og heilindi Þórarins Tyrfingssonar

Á lífsferli mínum hef ég kynnst mörgum sem hafa verið í meðferð hjá SÁÁ. Sumir þeirra hafa greint mér frá því hvernig fyrrverandi yfirlæknir samtakanna, Þórarinn Tyrfingsson, hefur talað niður til meðferðarþega sinna - þeirra og annarra - með hroka og gikkshætti sem varla getur talist sæmandi manni í þeirri stöðu sem hann gegndi.

            Í ljósi þess að SÁÁ eru að stórum hluta rekin fyrir almannafé og hafa ítrekað gert við hið opinbera þjónustusamninga sem hlaupa á milljónum króna, tel ég fyllstu ástæðu til að láta þessar upplýsingar um ummæli Þórarins og annað háttalag hans koma fyrir almenningssjónir, ekki síst vegna þess að þau veita nokkra innsýn í sálarástand og siðferði þess manns sem undanfarin fjörutíu ár hefur haft frjálsar hendur um að móta bróðurpartinn af meðferðarstarfi á Íslandi og skapa þann anda sem ríkir í meðferðarstöðvum SÁÁ.

            Ég vil taka skýrt fram að hér er einungis um að ræða atvik og ummæli sem tengjast beinlínis störfum Þórarins í þágu SÁÁ, en einkalíf hans - sem og allra annarra manna - er mér óviðkomandi.           Ennfremur vil ég árétta að hér er ekki um að ræða ,,kjaftasögur“ sem hafa farið á milli margra manna og tekið breytingum í meðförum þeirra, heldur voru heimildamenn mínir í öllum tilvikum heyrnarvottar að ummælum Þórarins þegar hann lét þau falla.

            Hér koma dæmin og rek ég þau fram efnislega á nákvæmlega sama hátt og mér var greint frá þeim.

 

1.         ,,Það fæðist nú enginn þunglyndur“, sagði Þórarinn við meðferðarþega sinn sem hafði þunglyndi í ættinni. (Ég ætla ekki að sitja á þeim strák mínum sem vill benda á, að ef Þórarinn hefði verið spurður að því, hvort einhverjir væru fæddir alkóhólistar, þá hefðu honum væntanlega farist öðruvísi orð!)

2.         Einn meðferðarþegi fékk frá honum þessa hughreystandi yfirlýsingu: ,,Gerirðu þér grein fyrir því að þú ert einhver sjúkasti maður sem hefur komið hér inn?“

3.         Annar meðferðarþegi fékk frá honum þessa vingjarnlegu athugasemd: ,,Ég vil ekki þurfa að sjá þig hér aftur eftir tíu ár!“

4.         Einhver besti vinur minn á seinni árum var innritaður í meðferð og gat þess skilmerkilega við þá sem innrituðu hann, að á ákveðnum tímapunkti þyrfti hann bráðnauðsynlega að fá leyfi til að bregða sér út af meðferðarstofnuninni til að sinna aðkallandi málefni. Var honum tjáð að ekkert ætti að verða því til fyrirstöðu. En þegar að því kom, var Þórarinn kominn í spilið og sagði manninum að hann fengi ekki að skreppa eitt eða neitt, annað hvort kláraði hann meðferðina eða færi alfarinn. Vinur minn sagði að það yrði þá svo að vera, því erindi það sem hann þyrfti að reka, þyldi enga bið. Ekki fékk hann þó að fara fyrr en gangarnir voru orðnir auðir að lokinni ,,staðardagskrá“.

5.         Eitt sinn skeði það á Vogi að einn meðferðarþeginn tognaði á handlegg eða fótlegg og var hann fluttur á spítala á höfuðborgarsvæðinu þar sem vakthafandi læknir bjó um áverkann. Að því loknu var maðurinn fluttur aftur á Vog og fór Þórarinn þá að skoða hvernig staðið hefði verið að málum. Honum hugnaðist ekki umbúnaður læknisins og það hnussaði fyrirlitlega í honum: ,,Þetta er bara alkóhólisti!“

 

            Úr því að ég er á annað borð farinn að stinga niður penna um Þórarin, ætla ég að tilfæra fleiri ummæli hans sem bera heilindum hans og vísdómi hið fegursta vitni.

            Árið 2015 þegar eitt af áfengisfrumvörpunum svokölluðu var í pípunum, kom magnað viðtal við Þórarinn í ríkisútvarpinu. Það var spilað fyrir hann lag að eigin vali og rætt við hann um lífið og tilveruna.

            Þórarni fórust mjög skaplega orð framan af þessi viðtali. Hann spjallaði um foreldra sína sem hann kvað hafa verið nánast bindindisfólk. Svo ræddi hann um Yeltsin vin sinn og áfengismálastefnu hans í Rússlandi sem hann kvað hafa orðið til mikils ófarnaðar. Aðspurður hvort hann væri andvígur áfengisfrumvarpinu, kvað Þórarinn svo vera af því að hann tæki ,,þetta frá lýðheilsusjónarmiði“ en það væri ,,svo sem hægt að taka það öðruvísi“.

            Þegar útvarpsmaðurinn spurði Þórarinn hvort hann hefði áhyggjur af aukinni unglingadrykkju, ef frumvarpið gengi í gegn, kvað hann svo ekki vera, því ungmennin væru létt á fæti og kæmust erfiðislaust það sem þau ætluðu sér. En það væri verra með gamalmennin sem væru orðin þung á sér; þau gætu freistast til að grípa með flösku eða dós þegar þau væru að versla í matvörubúðum, ef áfengi yrði þar á boðstólum. (Þegar hér var komið viðtalinu, láðist útvarpsmanninum alveg að benda Þórarni á, að þegar væri búið að koma upp vínstúkum á elliheimilum í Reykjavík til afnota fyrir vistmenn!)

            Þórarinn klykkti viðtalið út með því að segja að í góðu samfélagi þyrfti sá sterki að beygja sig, það væri þekkt úr öllum vísindum, og við könnuðumst öll við sterka menn sem væru ljúfir og lítillátir.

            Um þessar staðhæfingar er fyllsta ástæða til að fara nokkrum orðum. Það er vel hægt að temja sér ljúfmannlega framkomu, hógværð og lítillæti, án þess að beygja sig! Það sem felst í því að beygja sig er að menn láta yfir sig ganga eitthvað sem þeir telja óásættanlegt, ósæmilegt og rangt! Í góðu samfélagi þarf enginn að beygja sig fyrir öðrum! Í góðu samfélagi fá menn einfaldlega að hafa frið með líf sitt svo lengi sem þeir láta aðra í friði!

            En við skulum spila þetta aðeins lengra og taka persónu Þórarins Tyrfingssonar sjálfs til enn frekari greiningar á grundvelli þessara bollalegginga. Hefur hann getið sér orð fyrir ljúfmennsku og lítillæti? Varla! Hann liggur undir því ámæli að vera samvalinn vini sínum og sálufélaga, Kára Stefánssyni, í hroka og yfirgangi! Hefur hann fengið orð fyrir það að honum sé gjarnt að beygja sig? Tæpast! Hins vegar hefur hann talsvert verið orðaður við það að reyna að beygja aðra!

            Á fyrra árshelmingi 2016 eða um mitt ár lögðu SÁÁ upp í rétt eina betliherferðina. Af því tilefni kom örstutt viðtal við Þórarinn Tyrfingsson í ríkisútvarpinu, þar sem hann lýsti því að lyf sem væri gefið fíklum á Vogi, hefði stórhækkað í verði. Aðspurður hvort nokkur gild rök lægju til þeirrar verðhækkunar, kvað Þórarinn svo ekki vera og sagði að þetta væri mjög bagalegt fyrir ,,litla sjúkrastofnum, lítið sjúkrahús“, eins og hann orðaði það.

            Hinn 5. mars 2016 hafði það borið við á Vogi, að kona að nafni Guðný María Arnþórsdóttir sem um árabil hefur unnið sjálfboðastörf fyrir SÁÁ, glataði þar veski sínu með öllu sem í því var, og varð ekki betur séð en að því hefði verið stolið. Konan hringdi þá í lögreglu til að tilkynna hvarfið og óska eftir rannsókn. En þegar lögreglumenn komu á staðinn til að rannsaka málið ,,var þeim bannað að fara inn á sjúkrahúsið samkvæmt fyrirmælum frá vakthafandi lækni“ og urðu frá að hverfa.

            Þetta mál var síðar borið undir Þórarinn Tyrfingsson. Varði hann alfarið þá málsafgreiðslu að meina lögreglunni aðgang að Vogi og sagði af þessu tilefni: ,,Þetta er stórt og mikið sjúkrahús og það verður líka að gæta að öryggi sjúklinganna og öllu því sem hér fer fram ...." Má lesa ítarlega umfjöllun um þetta mál á fréttamiðlinum DV 30. september 2016.

            Þegar þessi tilvitnuðu orð úr umfjöllun DV eru borin saman við ummælin í útvarpsviðtalinu um lyfið dýra, vekur það sérstaka athygli hvað upplýsingarnar um stærð sjúkrahússins eru misvísandi. Læðist að sá grunur að Þórarinn búi yfir einhverjum þeim töfrakrafti sem geri honum kleift að þenja Vog út eða draga hann saman eftir því sem honum hentar best hverju sinni. Og maður spyr sig: Skyldi Vogur vera lítið eða stórt sjúkrahús?

Áður birst í 46. tbl. Feykis 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir