Óskynsamleg uppbygging flugstöðvar í 102 RVK

Reykjavíkurflugvöllur. Mynd: Isavia.is.
Reykjavíkurflugvöllur. Mynd: Isavia.is.

Ungliðahreyfing Viðreisnar harmar áform Jóns Gunnarssonar, samgönguráðherra, um byggingu nýrrar flugstöðvar í Vatnsmýrinni og segir að slíkar framkvæmdir yrðu fyrst og fremst til þess fallnar að ýta undir sundrung og skotgrafastjórnmál og flækja umræðuna um framtíð flugvallarins enn frekar. Að mati Ungliðahreyfingarinnar er hugmyndin vanhugsuð og á skjön við þarfir og óskir almennings.

Í ályktun ungliðahreyfingarinnar segir að ráðherra nefni þau rök, áformum sínum til stuðnings, að tímabært sé að byggja nýjan og betri flugvöll. Ungliðahreyfingin sýnir þeim sjónarmiðum skilning en beinir athygli ráðherra að því að sátt hefur enn ekki náðst um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Því er varhugavert að verja háum fjárhæðum í uppbyggingu flugstöðvar á þessum tímapunkti. Slíkt er hvorki skynsamleg nýting skattfjár né almannahagsmunum í vil.

Sterk rök eru fyrir því að endurskoða staðsetningu flugvallarins, enda er mikill skortur á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, og þá sérstaklega miðsvæðis. Kannanir hafa ítrekað sýnt að fólk vilji helst búa vestan Elliðaáa, og er uppbygging byggðar í Vatnsmýri því bæði í samræmi við markmið um fjölgun íbúða, umhverfisvernd og vilja kjósenda. Framkvæmdir af

þessu tagi gera fátt annað en að gera stöðuna milli ríkis og borgar erfiðari en nú er og vinna þannig gegn þeirri sátt sem nauðsynlegt er að náist til frambúðar.

Ungliðahreyfing Viðreisnar hvetur því samgönguráðherra til að endurskoða áform sín og huga frekar að lausnum sem eru í takt við framtíðarhagsmuni samfélagsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir