Ráðstefna um stöðu mála á Norðurlandi vestra

Fjölmennt var á ráðstefnunni í Miðgarði í gær. Mynd: Sigfús Ólafur Guðmundsson.
Fjölmennt var á ráðstefnunni í Miðgarði í gær. Mynd: Sigfús Ólafur Guðmundsson.

Ráðstefna um stöðu mála á Norðurlandi vestra var haldin mánudaginn 12. júní sl.   Ráðstefnan var haldin að frumkvæði Kaupfélags Skagfirðinga í samvinnu við sveitarfélög á svæðinu. Inntak ráðstefnunnar var víðfeðmt og voru haldnar framsögur um landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál, menningarmál, ferðaþjónustu, stóriðju og sveitarstjórnarmál. Um 100 manns sóttu ráðstefnuna úr öllum kimum samfélagsins og var ánægjulegt að sjá jafnt kynjahlutfall framsögumanna á ráðstefnunni, þrjár konur og þrír karlar.

Sigurður Árnason sérfræðingur Byggðastofnunar fór yfir íbúaþróun á svæðinu síðustu ár og vakti þar athygli á skýrum hnignunarmerkjum í íbúaþróun. Börnum og ungu fólki fækkar mest jafnframt því að meðalaldur á svæðinu hækkar. Aðeins meiri fækkun var í Húnavatnssýslunum en í Skagafirði.

Ráðstefnunni var skipt upp í tvo hluta, framsögur og svo vinnuhópa. Vilhjálmur Egilsson, rektor á Bifröst, stýrði ráðstefnunni ásamt því að skipuleggja hópastarfið. Ánægja var meðal gesta á framtakinu og var Valgarður Hilmarsson frá Blönduósi meðal gesta sem kvöddu sér hljóðs í lok ráðstefnunnar. Lýsti hann ánægju sinni með að nú væri notað orðið  „við“ sem heild fyrir Norðurland vestra en ekki „ég“ fyrir sitt svæði.

/SÓG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir