Rúnar Már sjóðheitur í svissneska boltanum og settann í sammarann

Rúnar Már mættur til að minna á sig.
Rúnar Már mættur til að minna á sig.

Króksarinn Rúnar Már Sigurjónsson var á dögunum ekki valinn í landsliðshóp Íslands fyrir komandi verkefni nú í landsliðsglugganum. Hann minnti þó á sig í kjölfarið því um helgina gerði hann glæsimark og lagði upp sigurmark í leik St. Gallen gegn fyrrverandi félögum hans í Grasshoppers í efstu deildinni í Sviss.

Mark Rúnars var einkar glæsilegt. Hann fékk boltann um 30 metrum frá marki eftir misheppnaði aukaspyrnu St. Gallen, lagði boltann fyrir hægri og smellti bylmingsskoti upp í sammarann vinstra megin. Rúnar átti síðan laglega þversendingu inn fyrir vörn Grasshoppers þar sem félagi hans tók við boltanum og skoraði gott mark úr þröngri stöðu. Rúnar hefur í síðustu fjórum leikjum gert þrjú mörk og spilað vel en hann hefur nú á skömmum tíma tvívegis verið valinn í lið umferðarinnar í svissnesku úrvalsdeildinni.

Nú þarf ekki að draga það í efa að hversu svekkjandi það er að detta út úr landsliðshópi Íslands á þessum mest spennandi tíma í sögu íslenskrar knattspyrnu en nú eru tæpir 100 dagar þar til Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik sínum á HM í knattspyrnu. Þá verða menn að sýna úr hverju þeir eru gerðir og ná athygli landsliðsþjálfarans með góðri frammistöðu. Það verður varla annað sagt en að Rúnar hafi minnt rækilega á sig.

Hér má sjá markið hans Rúnars >

Hér eru svo helstu atvik leiksins og þ.m.t. stoðsending Rúnars í síðara marki St. Gallen >

St. Gallen er nú í þriðja sæti svissnesku deildarinnar og á í baráttu við öflugt lið Basel um annað sætið í deildinni en það gefur rétt á þátttöku í Meistaradeild Evrópu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir