Sæmundur SK 1 - Steinar Skarphéðinsson skrifar um gamla báta

Sæmundur SK 1
Sæmundur SK 1

Vélbáturinn Sæmundur SK 1, einkennisbókstafir TFOQ, var smíðaður hjá skipasmíðastöð í bænum Hällevikstrand í Svíþjóð árið 1946. Báturinn var smíðaður að tilstuðlan Ríkissjóðs Íslands. Þjóðernis og eignayfirlýsing gefin út í Goteborg, dags 9. maí árið 1946. Báturinn var keyptur nýr til Sauðárkróks og var kaupandinn Útgerðarfélag Sauðárkróks sem stofnað hafði verið árið 1945 og eru samþykktir þess félags dagsettar 8. júní 1945. Stjórn félagsins skipuðu: formaður Haraldur Júlíusson kaupmaður, Magnús Bjarnason kennari, Guðmundur Sveinsson fulltrúi, Gísli Vilhjálmsson útgerðarmaður og Kristófer Eggertsson skipstjóri, allir búsettir á Sauðárkróki.

 

Steinar Skarphéðinsson höfundur greinarinnar. Lýsing samkvæmt fyrstu skipaskrá: Lengd 20,22 metrar. Breidd 5,21m. Dýpt 2,20m. Stærð rúmlestir 53 brúttó. Tala þilfara 1, siglna (mastur) 2, lóðrétt stefni og sporbaugslagað hekk. Skrokkurinn með sléttsúð (plankabyggður) úr eik og innsúð talin fullkomin. Þá er í afturskipi káeta fyrir yfirmenn, lúkar í framskipi fyrir háseta og þar var einnig eldunaraðstaða. Þá var einnig kortaklefi (bestikk) aftast í stýrishúsi með koju fyrir skipstjóra. Í bátnum var aðalvél af gerðinni Polar Diesel 170 hestöfl smíðuð árið 1946 með tilheyrandi skrúfubúnaði. Ekki var um ljósavélar í bátum af þessari stærð að ræða á þessum tíma heldur rafall reimdrifinn frá aðalvél, oftast 32 volta spenna.

Búnaður á þilfari var spil með tveimur tromlum og koppum sitt hvoru megin. Öxuldrifið frá aðalvél notað sem snurpuspil á síldveiðum en togspil væri báturinn á togveiðum. Þá var einnig svokallað línuspil framarlega á þilfarinu nærri stjórnborðslunningu og var það notað við línu og netadrátt en algengt var að bátar frá norðurlandi færu suður á vetrarvertíð á þessum tímum.

Í stýrishúsi var ekki mikill tækjabúnaður fyrir utan stjórntæki fyrir vél og áttaviti. Í besta falli dýptarmælir og þá oftast Kelvin Huges neistamælir sem virkaði nú ekki alltaf. Þá var að sjálfsögðu stýri í stýrishúsinu og var tegund þess svokölluð keðjustýri þar sem keðja lá í keðjuhjóli framan við stýrishjól og þaðan í rörum ofandekks þar til hún tengdist stýrisás í skut bátsins. Ekki eru til heimildir um heimsiglingu bátsins en fyrsta lögskráning fer fram hjá Sýslumannsembætti Skagafjarðarsýslu þann 26. júní 1946.

Skipstjóri Finnbogi Halldórsson frá Siglufirði, stýrimaður Helgi Einarsson frá Akranesi, síðar Sauðárkróki og fyrsti vélstjóri Ásgeir Ágústsson frá Eskifirði. Báturinn var í eigu Útgerðarfélags  Sauðárkróks til ársins 1955 er hann var seldur til Keflavíkur og er afsal til handa Steindóri Péturssyni dagsett 3/11 ´55.

Meðan báturinn var í eigu ÚS (hins fyrra) var hann á síld á sumrin og gekk vel og var hann oft með aflahærri síldarbátum. Þess utan var hann á togveiðum og þá aðallega hér innfjarða á Skagafirði, þó mátti hann ekki vera fyrir innan eyjar þó ef til vill hafi verið misbrestur á því.

Þeir eru nú ekki margir eftirlifandi sem voru skipverjar á Sæmundi á þessum tíma en einn af þeim er Sigurfinnur Jónsson frá Steini á Reykjaströnd og man hann vel þessa tíma. Finnbogi Halldórsson var skipstjóri á Sæmundi þar til í júlí 1947 að hann tekur við skipstjórn á vélbátnum Eiríki SK 2 sem var í eigu sama félags. En við skipstjórn á Sæmundi SK 1 tók Stefán Sigurðsson, Sauðárkróki en einnig var Jón Guðjónsson, frá Siglufirði, skipstjóri með bátinn á síldveiðum.

Eftir komuna til Keflavíkur hélt hann sama nafni en skipt var um vél í bátnum árið 1955 og sett var í hann Mannheim vél 280 hestöfl. Áfram var báturinn í Keflavík en fékk síðar nafnið Gunnfaxi KE 9. Endalok bátsins urðu svo þau að 16. mars 1964 sökk hann og er þess getið að mannbjörg hafi orðið.

 

Áður birst í 14. tbl. Feykis 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir