Safn bóka eða menningarhús? Nokkuð orð um hlutverk og starfsemi bókasafna

Katharina A. Schneider
Katharina A. Schneider

Síðastliðinn föstudag var ég á SSNV ráðstefnu sem haldinn var á Laugarbakka, en þar voru m.a. kynntar niðurstöður könnunar á viðhorfum íbúa Norðurlands vestra til ýmissa búsetuþátta. Þar á meðal voru þættir eins og gæði opinberrar þjónustu og mikilvægi umhverfis og ýmissar afþreyingar. Kynnt var hvaða málaflokkar skoruðu hæst í könnuninni, en þar voru bókasöfn með í efstu sætunum. Það vakti undrun hjá fundarmönnum. „Þetta kemur mér skemmtilega á óvart”, sagði einn ráðstefnugesta. „Ég hélt að fólk sækti sér bara upplýsingar á netinu nú í dag”. „Hefur nokkur tíma til að lesa bækur”, sagði annar.

Þessi viðbrögð sýna ákveðinn viðhorf gagnvart bókasöfnum sem er mjög algengt, og ekki bara á Íslandi: Litið er á þau sem dálítið úreltar stofnanir, þar sem bókasafnsvörðurinn er að passa bækur sem sitja í rykugum hillum og biða eftir lánþegum, sem hafa ekki náð að tileinka sér netið, snjallsíma, og samfélagsmiðla.

Það er hins vegar langt frá raunveruleikanum. Hlutverk og starfsemi bókasafna hefur mikið breyst á undanförnum árum, og það er ekki í fyrsta skipti í aldagamalli sögu þeirra að þau hafi aðlagast nýjum tímum og breyttum þörfum notenda. Í gildandi íslenskum lögum eru bókasöfn skilgreind sem þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Sameiginlegt markmið bókasafna er að veita aðgang að fjölbreyttu efni og upplýsingum á mismunandi formi, og efla m.a. menningar- og vísindastarfsemi, menntun, ánægjulestur og upplýsingalæsi.

Bókasöfn 21. aldar hafa þróast úr „safni bóka” í öflug menntunar- og menningarsetur. Þau ráða til sín starfsfólk með menntun í upplýsinga- og tölvufræðum, leiklist og menningarstjórnun, og veita þjónustu fyrir nútímanotendur. Borgarbókasafnið í Stuttgart í Þýskalandi býður upp á rafræn útlán á bókum, hljóðbókum, og tímaritum, og tungumálaaðstoð fyrir innflytjendur. Á bókasafni í Delft í Hollandi hafa börn aðgengi að tæknivæddu leiksvæði og boðið er upp á margskonar gagnvirka þjónustu, s.s. sérhönnuð sæti („multimedia chair“) þar sem hægt er að hlusta eða horfa á efni, og stöðvar þar sem gestir geta tekið upp sögur sem þeir sjálfir segja og vilja deila með öðrum. Borgarbókasafnið í Reykjavík (sem nú kallast Borgarbókasafn – Menningarhús) leigir út listaverk og stendur fyrir fjölbreyttu úrvali af viðburðum og námskeiðum, eins og ritsmiðjum og forritunarnámskeiði fyrir börn.

Slík þjónusta er að sjálfsögðu háð fjárhagslegri og starfsmannalegri getu. Það skýrir sig sjálft að lítil söfn út á landi með e.t.v. einn starfsmann í hlutastarfi hafa ekki sömu möguleika og bókasöfn í stórborgum varðandi innkaup á tæknibúnaði og safnefni eða dagskrárgerð. Bókasöfn á Norðurlandi vestra hafa ekki efni á að kaupa „margmiðlunarsæti” að því ég best veit. En þó virðast íbúar vera mjög ánægðir með þá þjónustu sem er veitt þar.

Á bókasafninu á Blönduósi er spilað, spjallað, lesið og leikið. Eftir klukkan 16:00 er oft fjölmennt, foreldrar eru að glugga í tímarit og börnin að púsla eða skoða myndabækur. Bókasafnið hefur staðið fyrir jólabókakynningum, jólaföndri, ratleikjum, lestrarátökum, fyrirlestri um rafbækur, upplestri, mömmuhittingum, spilakynningum, og sumardagskrá fyrir börn. Á bókasafninu er fundað, lært, og annan hvern miðvikudag hittist þar áhugafólk um ljósmyndasafn á vegum Skjalasafns A-Hún.

Í félagsfræði er mikið talað um mikilvægi „þriðja staðarins”, en það er hugtak sem lýsir samkomustað sem er ekki heimili eða vinnustaður. Hann er hlutlaus, aðgengilegur og aðlaðandi. Það kostar lítið eða ekkert að vera þar, og allir geta sótt hann á eigin forsendum og frumkvæði. Bókasöfn geta svo sannarlega verið slíkur staður. Bæði er hægt að sitja þar í rólegheitum og lesa dagblað, eða þá leita sér aðstoðar frá starfsmönnum varðandi margskonar efni. Útlánatölur segja ekki allt.

Starfsmenn bókasafna eru vanir að svara ýmiskonar spurningum sem Google ætti erfitt með: „Veist þú hvort það er til bók sem fjallar um ljósmóður hér á svæðinu, ég man ekki hvað hún hét?” „Ég á að skrifa ritgerð en finn engar heimildir, getur þú aðstoðað?” „Mig vantar lýsingu á sögupersónu úr fornaldarsögum Norðurlanda, bróðir minn heitir sama nafni og mig langar að koma honum á óvart á afmælinu hans.”

Ég hvet sem flesta til að kynna sér hlutverk og starfsemi bókasafna, því dýrmætt er að hafa slíka staði. Rannsóknir sýna að góð bókasafnsþjónusta, hvort sem um almennings-, skóla- eða sérfræðibókasöfn er að ræða, skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Hægt er að koma með tillögur um hvers konar þjónustu þið viljið sjá. Bókasöfn starfa í þágu allra íbúa, og gaman væri ef sem flestum fyndist þeir eiga erindi þangað.

Katharina A. Schneider, forstöðumaður Héraðsbókasafnsins A-Hún

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir