Samstarfssamningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps tekinn til endurskoðunar

Rekstur Varmahlíðarskóla er meðal samvinnuverkefna sveitarfélaganna tveggja. Mynd: Varmahlíðarskóli.is
Rekstur Varmahlíðarskóla er meðal samvinnuverkefna sveitarfélaganna tveggja. Mynd: Varmahlíðarskóli.is

Á fundi samstarfsnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps sem haldinn var þann 20. júní sl. kom fram að samstarfssamningur sveitarfélaganna hefur ekki verið tekinn til endurskoðunar frá árinu 1999 þegar hann var gerður.

Við stjórnsýsluskoðun hjá Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir árið 2015 komst KPMG ehf. að þeirri niðurstöðu að samningurinn uppfyllti ekki sveitarstjórnarlög nr. 138/2011. Á fundi samstarfsnefndar sveitarfélaganna þann 5. desember 2016 var því samþykkt að ráðast í endurskoðun á samningum á milli sveitarfélaganna tveggja.

Nú hefur Sveitarfélagið Skagafjörður ákveðið að fá liðsinni KPMG ehf. við að undirbúa gerð nýs þjónustusamnings Akrahrepps við Sveitarfélagið Skagafjörð sem uppfyllir öll þau lög og reglur er lúta að stjórnsýslu sveitarfélaga og tekjustofna þeirra. Samningurinn á að taka til allra sameiginlegra mála sveitarfélaganna tveggja og eiga drög að honum að liggja fyrir áður en fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna fyrir árið 2018 verða unnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir