Sjálfstæðismenn ánægðir með mætingu á opnun kosningaskrifstofu sinnar

Hjónin í Glaumbæ, sr. Gísli Gunnarsson og Þuríður K. Þorbergsdóttir mættu á opnun kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins á Sauðárkróki ásamt Þórði Eyjólfssyni, athafnamanni. Mynd: PF
Hjónin í Glaumbæ, sr. Gísli Gunnarsson og Þuríður K. Þorbergsdóttir mættu á opnun kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins á Sauðárkróki ásamt Þórði Eyjólfssyni, athafnamanni. Mynd: PF

Kosningaskrifstofa sjálfstæðisflokksins var opnuð formlega á Sauðárkróki sl. laugardag að Kaupangstorgi 1. Að sögn Bryndísar Lilju Hallsdóttur komu um hundrað gestir sem áttu saman mjög skemmtilega stund. Hún segir mikla samstöðu og jákvæðni hafa ríkt og mátti heyra á tali fólks að bjartsýni væri fyrir komandi kosningadegi. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti stutt ávarp og hvatti fólk til dáða.

Auk Bjarna mættu frambjóðendur sem skipa fjögur efstu sætin á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, þau Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Teitur Björn Einarsson, þingmaður og Hafdís Gunnarsdóttir, varaþingmaður. Einnig mættu þeir Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Einar Kristinn Guðfinnsson sem skipar heiðurssæti á lista flokksins í kjördæminu.

Bryndís segir að ekki einungis hafi opnun kosningaskrifstofunnar verið fagnað, því Bjarni Benediksson hafði tilkynnt fyrr um daginn að það ætti að láta reyna á áætlunarflug á Sauðárkrók frá 1. desember nk.

„Stjórn Sjálfstæðisfélags Skagfirðinga vill koma þökkum á framfæri til allra þeirra sem mættu á kosningaskrifstofuna á laugardaginn,“ segir Bryndís Lilja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir