Skagginn haldinn í annað sinn

Frá Skagganum á Skagaströnd í fyrra. Mynd/KSE
Frá Skagganum á Skagaströnd í fyrra. Mynd/KSE

Bæjarbúar Skagastrandar og nágrennis munu gera sér glaðan dag um helgina en þá verður bæjarhátíðin Skagginn haldin í annað sinn. Að sögn Sigurlaugar Láru Ingimundardóttur, formanni Tómstunda- og menningarmálanefndar, fundu skipuleggjendur hátíðarinnar fyrir mikilli ánægju með hátíðina í fyrra og því var ákveðið að hafa hátíðina í ár með svipuðu sniði. 

„Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel. Verkaskiptingin er nokkuð jöfn og eins og höfum við fundað með félagasamtökum og þjónustuaðilum því hátíðin í fyrra var samvinnuverkefni og tókst prýðilega,“ sagði Sigurlaug í Feyki sem kemur út í dag.  

„Á föstudeginum fögnum við 90 ára afmæli Ungmennafélagsins Fram, förum í ljóðagöngu um Spákonufellshöfða, kósýkvöld í sundlauginni, tónleikar á útisviði með hljómsveitinni „Ekkert mál-band“ og Ásgeir Kr. trúbador skemmtir á Borginni. Á laugardeginum verður froðudiskó á Kaupfélagstúni, Björgunarsveitin sýnir bíla og búnað, Samkaup grillar pylsur, sveitamarkaður á Hólanesi, kaffihlaðborð, andlitsmálun og grímugerð í Bjarmanesi, loftbolti á sparkvellinum, Píla pína skemmtir börnunum, Norðurlands Jakinn og um kvöldið verða tónleikar á útisviði og varðeldasöngur. Á sunnudeginum verður lummukaffi í Árnesi, ganga á Spákonufell, húsdýragarður á Kerlingarholti, bílasýning við Íþróttahús og listakona frá Nes með sýningu á dagbókum í Kaffi Bjarmanesi,“ segir Sigurlaug um fjölbreytta dagskrá hátíðarinnar, sem er aðgengilegt í heild sinni á vef Sveitarfélagsins Skagastrandar.  

Loks vill Sigurlaug vekja athygli á hóp á Facebook „Skagginn - bæjarhátíð á Skagaströnd“ og þar birtar verða myndir, tilkynningar og allar helstu upplýsingar. Eins er fólk hvatt til að nota myllumerkið „skagginn2016“.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir