Skákæfingar fyrir börn og unglinga

Skákfélag Sauðárkróks hyggst, eftir áramót, byrja með skákæfingar fyrir börn og unglinga. Æfingarnar verða á mánudögum frá kl. 17.00 til 18.30 í Húsi Frítímans og verður fyrsta æfingin þann 9. janúar. Gert er ráð fyrir að þátttakendur kunni mannganginn, en reynt verður að kenna þeim ýmis mikilvæg atriði, með það að markmiði að auka færni þeirra í skák. Á vef Skákfélagsins segir að fyrirkomulag æfinganna muni þróast eftir aðstæðum.

Starfsemi Skákfélagsins hefur verið líflegt í vetur og nokkur mót verið haldin. Nú síðast var haldið hraðskákmót þar sem Pálmi Sighvatsson vann sér inn nafnbótina Hraðskákmeistari Skákfélags Sauðárkróks. Næsta mót er 14. des, og verður því fram haldið 21. des, ef ekki tekst að klára það þá. 

Friðrik Ólafsson stórmeistari í skák opnaði formlega nýja vefsíðu sl. mánudag, skakkennsla.is, en á henni er að finna fjölbreytt úrval kennslumyndbanda í skák.  Markmiðið með gerð vefsíðunnar er að auðvelda aðgengi að náms- og kynningarefni á íslensku um skák sem einkum nýtist börnum sem eru að læra að tefla, skákkennurum í skólum og foreldrum sem vilja hjálpa börnum sínum með að verða betri skákmenn. Á vefnum er að finna rúmlega 120 kennslumyndbönd bæði fyrir byrjendur og lengra komna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir