Skipurit Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Það gætir einhvers misskilnings í aðdraganda kosninga um breytt verklag á fjölskyldusviði hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Álfhildur Leifsdóttir, starfsmaður Sveitarfélagsins Skagafjarðar og frambjóðandi á lista Vinstri grænna og óháðra, ritar grein sem birt er í fréttablaðinu Feyki. Þar fer hún yfir hvernig þessi tíðindi bárust henni og fullyrðir ranglega að stöður hjá sveitarfélaginu séu almennt ekki auglýstar. Sem sveitarstjóri og þar með æðsti yfirmaður starfsmanna sveitarfélagsins tel ég mig knúna til að leiðrétta þennan misskilning.

Árið 2012 voru gerðar breytingar á stjórnun verkefna Sveitarfélagsins Skagafjarðar í kjölfar viðamikillar úttektar á rekstri sveitarfélagsins. Í úttektinni voru m.a. lagðar fram tillögur um að sviðum yrði fækkað úr sex í þrjú sem bæru heitið, Veitu- og framkvæmdasvið, Fjölskyldusvið og Stjórnsýslu- og fjármálasvið. Með tillögunni fylgdu einnig drög að nýju skipuriti sem samþykkt var í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Sveitarstjórn réði í framhaldinu þrjá sviðsstjóra á hvert svið fyrir sig og voru þeim þá falin stjórnun og verkaskipting þeirra málaflokka sem undir þá heyrðu. Sviðsstjórarnir eru enn jafnmargir og sviðin þrjú og engu verið breytt í þeim efnum.

Allt frá því þetta skipurit tók gildi hefur verið unnið markvisst í anda samþættrar þjónustu sem felur í sér að verkefni sviðsins fara á milli starfsmanna þess í samræmi við þjónustuþörf íbúa og þekkingu og möguleika starfsmanna til að sinna viðkomandi verkefnum.

 Frá því þessi verkefnalisti var falinn sviðsstjóra fjölskyldusviðs hafa bæst við málefni fatlaðs fólks á öllu Norðurlandi vestra, sem fluttust frá byggðasamlaginu Rótum til sveitarfélagsins. Til fjölskyldusviðs heyra 76 stofnanir/málaflokkar og þar starfa um 290 starfsmenn. Í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar þessa árs var ákveðið að fara í skoðun og greiningu á stjórnun og stjórnsýslu sviðsins, m.a. með tilliti til umfangs verkefna, en 75% af rekstrargjöldum sveitarfélagsins liggja á  þessu sviði. Farið var í skoðun á verkefnum hjá einstökum starfmönnum og jafnframt var lagt mat á hvar þyrfti að bæta um betur í samþættri þjónustu sviðsins. Ýmsar afar gagnlegar ábendingar komu fram í þeirri skoðun sem þegar hafa komið til framkvæmda. Segja má að tvennt hafi þó staðið upp úr í greiningunni. Annars vegar að málaþungi í félagsþjónustu og barnavernd hafi aukist svo mikið að nauðsynlegt sé að efla þann hluta sviðsins. Hins vegar kom fram að nauðsynlegt sé að létta verkefnum sem snúa að fræðslumálum dags daglega enn frekar af sviðsstjóra. Með breytingum sem gerðar voru í kjölfar greiningarinnar er ekki verið að færa ábyrgð á stjórnun og fjármálum neitt til, það er allt óbreytt. Sviðsstjóri er áfram æðsti yfirmaður allra starfsmanna sviðsins og ber áfram alla ábyrgð á fjármálum þess.

Á svo stóru sviði þurfa þó alltaf að liggja fyrir skýrar boðleiðir, ekki síst fyrir þá sem þurfa að nota þjónustuna. Var ákveðið að samræma heiti starfa og breyta starfsheitum hjá þeim starfsmönnum sem standa næst sviðsstjóra. Það gætu hafa verið mistök því það virðist valda misskilningi. Sennilega eru það starfsheitin, sem áttu að hafa meiri skírskotun til aðgreiningar á þessu stóra sviði, sem eru að rugla umræðuna. Kannski hefði verið skynsamlegra að þau hefðu frekar fengið heitin teymisstjórar.

Það skal ítrekað að ekki er verið að ráða fólk í laus störf, allir þessir einstaklingar voru í þessu störfum fyrir og verið er að flytja verkefni til á milli þeirra. Jafnframt er afar mikilvægt að taka fram að þessar breytingar hafa ekki leitt til og leiða ekki sjálfkrafa til neinna launahækkana en vissulega er verið að auka ábyrgð þeirra starfsmanna sem fá nú fleiri verkefni til úrlausnar.

Ég vil því ítreka að hér er ekki um að ræða laus störf sem ráðið var í án auglýsinga, heldur tilfærslur á verkefnum á milli starfsmanna sviðsins sem og breytingar á starfsheitum. Engar breytingar eru á skipuriti sveitarfélagsins.

Í kjarasamningum er kveðið á um að skipulagsbreytingar sem og breytingar á verkefnum starfsmanna leiða ekki sjálfkrafa til þess að segja þurfi fólki upp störfum og auglýsa störf laus til umsóknar skv. breyttu skipulagi – en skoða þurfi hvort og þá hversu miklar breytingar verða á starfi, hæfisskilyrðum og aðstæðum að öðru leyti. Því eiga reglur um auglýsingaskyldu ekki alltaf við þegar um skipulagsbreytingar er að ræða. Jafnframt kemur fram í kjarasamningum að starfsmanni er skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því hann tók við starfi. Í slíkum tilvikum ber starfsmanni að tilkynna vinnuveitanda innan mánaðar hvort hann uni breytingunum.

Væntanlega er tilgangur þessa greinarkorns Álfhildar Leifsdóttur að kasta rýrð á núverandi sveitarstjórn í aðdraganda kosninga. Ég vil því ítreka að kjörnir fulltrúar koma ekki að rekstri sveitarfélagsins dags daglega og fara ekki yfir starfslýsingar starfsmanna. Fráfarandi fulltrúar núverandi sveitarstjórnar bera ekki ábyrgð á breyttri verkaskiptingu á fjölskyldusviði, hvað þá frambjóðendur þeirra flokka sem nú mynda meirihluta sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn ræður sveitarstjóra til þess að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og verkefna sveitarfélagsins. Sveitarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og æðsti yfirmaður starfsmanna þess, fyrirtækja og stofnana. Hann skal sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum og tekur ákvarðanir sem varða daglegan rekstur og þjónustu sveitarfélagsins.

Mér þykir afar leitt að umræða um verkaskiptingu á fjölskyldusviði skuli hafa tekið þessa stefnu. Telji greinarritari að sveitarstjóri sinni ekki því starfi sem honum er fyrir lagt þá óska ég eftir því að hún leggi fram formlega kvörtun til sveitarstjórnar þar að lútandi, í stað þess að ýja að því að það góða, hæfa og samviskusama starfsfólk sem sveitarfélagið hefur yfir að ráða sé ekki hæft til að sinna þeim störfum sem þau hafa verið ráðin til.

Hvað varðar tímabundnar ráðningar í störf sem greinarritari fullyrðir að hefð sé fyrir að sveitarfélagið ráði í og séu aldrei auglýst þegar kemur að fastráðningu, þá hef ég nú þegar óskað eftir upplýsingum frá starfsmannahaldi um hvaða störf það gætu verið sem þarna er verið að ýja að, því ég kannast ekki við að þarna sé rétt farið með. Í kjölfarið hyggst ég láta skoða ráðningarferli almennt hjá sveitarfélaginu og stofnunum þess.

Íbúar sveitarfélagsins eiga að vera gagnrýnir á rekstur sveitarfélagsins. Þetta er sveitarfélagið okkar allra sem við viljum að dafni og þroskist. Það er alltaf hægt að gera betur, við getum markvisst stuðlað að framförum, styrkt, eflt og auðgað samfélagið okkar. Þess vegna er gott að fá gagnrýni og ábendingar um hvað megi gera betur. Besta gagnrýnin er þegar rýnt er til uppbyggilegs gagns, byggt á ítarlegri skoðun, yfirveguðu mati eða greiningum.

Ásta Pálmadóttir
sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir