Skortur á dagvistunarúrræðum veldur áhyggjum

Elín Árdís með Björn Henrý, þrettán mánaða son sinn. Mynd: KSE
Elín Árdís með Björn Henrý, þrettán mánaða son sinn. Mynd: KSE

Foreldrar ungra barna á Sauðárkróki eru uggandi vegna skorts á dagvistunarúrræðum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Elín Árdís Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og móðir þrettán mánaða drengs, segist sjá fram á að þurfa að segja upp draumastarfinu þar sem hún komið barni sínu ekki inn á leikskóla fyrr en næsta haust.

Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri hjá Svf. Skagafirði og staðgengill sviðsstjóra fjölskyldusviðs, segir að ítrekað hafi verið auglýst eftir dagforeldrum og í dag séu 24 börn á biðlista eftir leikskólaplássi á Sauðárkróki og sjö þeirra séu eldri en eins árs.

Flutti heim og fékk draumastarfið

Foreldrar ungra barna á Sauðárkróki eru uggandi vegna skorts á dagvistunarúrræðum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Elín Árdís Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og móðir þrettán mánaða drengs, segist sjá fram á að þurfa að segja upp draumastarfinu þar sem hún komið barni sínu ekki inn á leikskóla fyrr en næsta haust. Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri hjá Svf. Skagafirði og staðgengill sviðsstjóra fjölskyldusviðs, segir að ítrekað hafi verið auglýst eftir dagforeldrum og í dag séu 24 börn á biðlista eftir leikskólaplássi á Sauðárkróki og sjö þeirra séu eldri en eins árs.

Elín Árdís og maður hennar, Unnar Bjarki Egilsson, fluttu aftur heim á Sauðárkrók að námi loknu síðasta vor, en Elín Árdís segir að þau hafi verið með annan fótinn á Króknum á meðan þau stunduðu nám á Akureyri. Unnar Bjarki lauk námi í vélstjórn árið 2013 og er vélstjóri á Arnari HU en Elín útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur sl. og fékk starf við HSN á Sauðárkróki sl. haust. „Ég vann heima á sumrin og aðeins með skólanum, en eftir að ég átti Björn Henrý í nóvember í fyrra var ég heima. Ég byrjaði svo að vinna hérna í ágúst,“ segir hún. Björn Henrý byrjaði hjá dagmömmu í haust en hún mun hætta störfum rétt fyrir jól og segir Elín Árdís að eftir það séu engin dagvistunarúrræði fyrir Björn Henrý og hún sjái ekki fram á að hann fái leikskólapláss fyrr en næsta haust. „Ég vissi það ekki fyrr en um það bil viku áður en ég byrjaði að vinna að ég fengivistun fyrir drenginn fyrir komandi vetur. Það verða tvær dagmömmur eftir áramót og það er fullt af börnum sem vantar pláss,“ segir Elín Árdís.

„Það er bara tekið inn á leikskólann á haustin. Og næsta haust fer lítill skólahópur í grunnskólann, 26 börn, en 2015 árgangurinn er um 60 börn,“ segir Elín Árdís. Hún segir jafnframt að börn sem fædd eru í október 2015 og fyrr séu komin inn á leikskóla en þau sem fædd eru í nóvember og desember 2015 séu hjá dagforeldrum. Aðspurð um hvað taki við ef ekki tekst að finna dagvistunarúrræði fyrir Björn Henrý segist Elín Árdís líklega þurfa að hætta að vinna. „Þá hætti ég líklega að vinna. Pabbi hans er á sjó og hann verður heima í janúar en svo fer hann aftur út í febrúar og þá höfum við ekki neitt,“ segir hún. „Mér finnst ekki gott fyrir barnið að vera svona lausskorðað, börn þurfa rútínu. Það er ekki boðlegt að þurfa að henda börnum á milli ættingja í pössun.“ Elín Árdís segist hafa fengið þau svör að Björn Henrý komist ekki inn á leikskóla fyrr en næsta haust og segir að líklega sé hann númer fimm á biðlista, það séu alla vega fjögur eldri börn á undan.

„Ég myndi vilja sjá ungbarnaleikskóla, eða þá að sveitarfélagið skaffi dagmæðrum húsnæði. Dagmæður komast aldrei frá og hafa enga afleysingu og ef þær verða veikar eða slíkt þá hefur það áhrif á fimm fjölskyldur. Það setur líka húsnæðið á hvolf að vera með þetta heima hjá sér og þessu fylgir mikið umstang. Auk þess ertu einn í vinnunni allan daginn,“ segir Elín Árdís og telur að ofantalin úrræði væru ef til vill heppilegri en núverandi dagforeldrafyrirkomulag. Þegar blaðamann bar að garði var Elín Árdís nýkomin heim með Björn Henrý, þar sem lokað var hjá dagmömmunni eftir hádegi þann dag. Hún vinnur vaktavinnu og var því í fríi en segist yfirleitt vinna morgunvaktir á virkum dögum. „Ég fékk starf á sjúkradeildinni, eins og mig hafði dreymt um. En ég er ekki viss um að geta haldið því ef ekki leysist úr þessu,“ segir Elín Árdís að lokum.

Ítrekað auglýst eftir dagforeldrum

Á Sauðárkróki eru börn aðallega tekin inn í leikskólann að hausti, þar sem pláss losna þegar börn í skólahóp byrja í grunnskóla.Þegar það er gert eru tekin inn eins mörg börn og plássin sem losna leyfa. Að sögn Gunnars Sandholt hjá fjölskyldusviði Svf. Skagafjarðar tókst s.l. haust að taka inn öll börn af biðlista sem orðin voru ellefu mánaða. „Ef foreldri segir upp leikskólaplássi barns þá er elsta barn á biðlista tekið inn, óháð árstíma,“ segir Gunnar.

Hann segir að í dag séu 24 börn á biðlista, þar af eru sjö börn eldri en eins árs, það elsta rúmlega þrettán mánaða gamalt. Sex börn eru aldrinum 9 -12 mánaða. Gunnar segir að í dag eru tvær dagmæður starfandi á Sauðárkróki, en til að anna eftirspurn þyrftu þær að vera þrjár til fjórar. „Önnur hættir um áramót þegar ný dagmóðir byrjar. Þær tvær sem nú starfa hafa leyfi fyrir níu börnum, en í janúar verða það átta pláss. Vitað er að tvær konur eru að velta því fyrir sér að hefja dagmóðurþjónustu í lok fyrsta ársfjórðungs 2017. Dagmæður halda sjálfar biðlista og við höfum ekki nákvæmt yfirlit yfir þá en nokkur börn eru á biðlista,“ segir Gunnar.

Aðspurður um úrræði til að bregðast við þessum vanda segir Gunnar að sveitarfélagið hafi ítrekað auglýst eftir dagforeldrum á Sauðárkróki, en stundum með litlum árangri og hafa þurfi í huga að dagmæður séu sjálfstæðir verktakar. „Ástandið er nokkru betra í leikskólum utan Sauðárkróks og hefur foreldrum verið bent á að unnt sé að taka við börnum þar, en fjarlægðir eru miklar en samt eru dæmi þess að foreldrar hafi nýtt sér það. Ef foreldar geta leyst sín mál með aupair starfsmanni hefur sveitarfélagið möguleika á að veita svipaða niðurgreiðslu eins og ef barn væri hjá dagforeldri. En slíkt úrræði tekur langan tíma að undirbúa, krefst húsrýmis og góðra fjárráða, sem ekki allir hafa. Einnig hefur sveitarfélagið undantekningarákvæði í reglum um niðurgreiðslu á daggæslukostnaði á einkaheimili, svokallað „ömmuleyfi“ þegar nákominn ættingi getur aðstoðað foreldra og tekið barnið í dagvistun og er þá ekki krafist formlegs leyfis samkvæmt reglugerð en sveitarfélagið getur engu að síður tekið þátt í að greiða niður kostnað,“ segir Gunnar ennfremur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir