Sókn í byggðamálum

Á fullveldisdaginn leit ný ríkisstjórn dagsins ljós. Ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.  Frá því að síðasta ríkistjórn rauf þing og boðaði til kosninga hefur ríkt nokkur óvissa og stjórnmálin liðast um í einhverju þyngdarleysi sem ríkt hefur allt frá kosningum 2016.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar tóku sér góðan tíma til að undirbúa samstarfið enda komu margir að borðinu og til að horfa fram á veginn. Þessi vinna og traust samstarf milli formanna flokkanna hefur skilað nýrri ríkisstjórn góðri byrjun sem hefst með því að hún hefur fylgi 78% landsmanna samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins núna 6. desember.

Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar er sleginn nýr tónn og í honum felast mörg tækifæri fyrir allt landið. Öflug byggðasjónarmið sem miða að jafnrétti byggða og búsetu. Uppbygging  í samgöngum, heilbrigðismálum og menntamálum. Þessi þrjú atriði hafa fengið að sitja á hakanum lengi og hvert árið breikkar bilið á milli búsetuskilyrða landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.

Styrkja þarf framhaldsskólana.

Í því fellst að tryggja þurfi framhaldsskólum fjármagn og frelsi til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaganna. Þetta skiptir miklu máli því einu ráðin sem framhaldskólarnir hafa til að halda sig innan ramma fjárlaga hefur verið að draga úr kennslu og þá hafa iðngreinar verið í hættu. Fyrir vikið verða skólarnir einsleitir og hæfni við að koma til móts við væntingar nemenda minnkar. Öflugt menntakerfi er forsenda þess að samfélög nái að þróast og dafna.  Mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir hefur komið með krafti í nýtt embætti og boðar breytingar innblásnar af áhuga og metnaði. Ég hef miklar væntingar til þess að skólakerfið fái að njóta þess um land allt.

Samgöngur og byggðamál

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að ljósleiðaravæðingu landsins verði lokið 2020 og sett verði aukið fé til uppbygginga í vegamálum bæði nýframkvæmdum og viðhaldi. Þar eru mörg verkefni í NV kjördæmi. Samkvæmt skýrslu Vífils Karlssonar, um umferð og ástand vega á Vesturlandi frá 2016, verma vegir á Norðurlandi vestra neðsta sætið þegar kemur að samanburði á bundnu slitlagi á vegum landsins og Vesturlandið kemur fast á eftir. Svo ekki sé nú talað um ástand vega á sunnanverðum Vestfjörðum. Það eru margir flöskuhálsar á stofnvegum á Vestfjörðum, uppbygging hefur átt sér stað á stofnvegum á norðanverðum Vestfjörðum en Suðurfirðirnir geta ekki talist í nútíma vegasambandi hvorki suður né norður.

Sóknaráætlanir landshlutanna eru mikilvæg tæki til að ýta undir uppbyggingu og nýsköpun, það er byggðastefna á forsendum heimamanna. Byggðaraðgerðir sem hafa tíðkast og reynst vel á nágrannalöndunum á að skoða og menntamálaráðherra hefur þegar boðað að skoða eigi  námslánakerfið til að hvetja fólk með sérþekkingu til að setjast að í dreifðum byggðum landsins, þá með afslætti á lánum. Þá væri hægt að skoða tekjuskattskerfið með sömu gleraugum.

Það eru mörg verkefni í sem geta styrkt byggð í landinu og ný ríkisstjórn boðar sókn í byggðamálum, í samvinnu við heimamenn á hverju svæði, með hagsmuni landsins í heild að leiðarljósi. 

Halla Signý Kristjánsdóttir,
7. þingmaður í NV kjördæmi

 

Áður birt í 47. tbl. Feykis

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir