Stefán Arnar tekur við Stólunum í kjölfar þess að Stephen og Chris kveðja

Stephen og Chris ræðast við í stund milli stríða fyrr í mánuðinum. MYND: ÓAB
Stephen og Chris ræðast við í stund milli stríða fyrr í mánuðinum. MYND: ÓAB

Í tilkynningu frá Knattspyrnudeild Tindastóls í gærkvöldi var það tilkynnt að Knattspyrnudeild Tindastóls og þjálfarar meistaraflokks karla, þeir Stephen Walmsley og Christofer Harrington, hafi komist að þeirri niðurstöðu að þeir leggi niður störf sem þjálfarar meistaraflokks karla hjá Tindastóli í knattspyrnu. 

Síðan segir í tilkynningunni: „Ástæða starfsloka er árangur liðsins í sumar sem báðir aðilar eru sammála um að sé alls ekki sá sem var stefnt á í byrjun sumars. Knattspyrnudeild Tindastóls þakkar þeim fyrir sín störf, en þeir hafa frá fyrsta degi lagt mikla vinnu í starf sitt. Óskum við þeim velfarnaðar í komandi verkefnum.“

Lið Tindastóls fór illa af stað í sumar en rétti síðan úr kútnum. Liðið er engu að síður í bullandi fallbaráttu og um liðna helgi tapaðist mikilvægur leikur á heimavelli í botnbaráttunni sem var erfitt að kyngja þar sem lið Tindastóls var einum fleiri megnið af leiknum.

Að sögn Bergmanns Guðmundssonar, formanns knattspyrnudeildar Tindastóls, hefur Stefán Arnar Ómarsson verið ráðinn þjálfari út tímabilið en Stefán var annar helmingur þjálfarateymis liðsins í fyrra, þegar liðið tryggði sér sæti í 2. deild. Þá eru Stólarnir að leita að liðsstyrk í júlíglugganum og ættu þau mál að skýrast á næstu dögum. Fráfarandi þjálfari Stólanna, Stephen Walmsley, var einnig einn mikilvægasti leikmaður liðsins þannig að ljóst er að skarð er fyrir skildi og stoppa þarf í götin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir