Stelpurnar náðu jafntefli í hörkleik gegn toppliði Þróttara

Stelpurnar gera sig klárar fyrir fast leikatriði. MYND: ÓAB
Stelpurnar gera sig klárar fyrir fast leikatriði. MYND: ÓAB

Það var hörkuleikur á Króknum í gærkvöldi þegar kvennalið Tindastóls fékk topplið Þróttar Reykjavík í heimsókn í 1. deild kvenna. Leikurinn var jafn og spennandi og jafntefli varð sanngjörn niðurstaða. Lokatölur 1-1.

Tveir erlendir leikmenn höfðu bæst í hóp Stólastúlkna, Madeline Keane og Lavinia Wilmer Nkomo, og þær styrktu liðið sannarlega. Keane kom inn í vörnina en Nkomo var lengstum á miðjunni. Heimastúlkur voru betra liðið í fyrri hálfleik, gegn norðanvindi og komust yfir strax á 10. mínútu með marki frá Emily Key. Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði fyrrum Tindastólsstúlkan, Eva Banton, eftir hornspyrnu. Madison Cannon fékk nokkur færi til að koma Stólastúlkum yfir á ný en Agnes Árnadóttir í marki Þróttar sá við henni. Næst komust Þróttarar því að skora þegar hörkuskot fór í slá og yfir.

Það vill oft vera þannig að liðum gengur betur að spila boltanum á móti vindi, sérstaklega þegar ætlunin er að stinga inn fyrir vörn andstæðinganna. Þetta kom á daginn. Stólunum gekk illa að hemja boltann í síðari hálfleik og flestar sendingar fram völlinn reyndust of langar. Að auki þá voru stelpurnar of mikið að senda háa bolta upp völlinn í stað þess að láta hann rúlla á vellinum og boltinn því oftar en ekki floginn út í buskann. Lið Þróttar náði betri tökum á leiknum eftir því sem leið á og voru nokkrum sinnum nálægt því að skora en Ana Lucia var í miklu stuði í marki Tindastóls og varði nokkrum sinnum frábærlega. Stólastúlkur fengu líka ágæt færi, fengu til dæmis aukaspyrnur og horn sem hefðu mátt nýtast mun betur. Eiginlega fóru allar aukaspyrnur og hornspyrnur Tindastóls forgörðum í gærkvöldi því boltinn barst aldrei inn á hættusvæði í teig Þróttara – yfirleitt endaði boltinn fyrir aftan endamörk. Það var því ekki skorað meira og liðin urðu að sættast á jafntefli.

Stólastúlkur voru að gera fína hluti í fyrri hálfleik en lentu í vandræðum í síðari hálfleik. Baráttan var þó sem fyrr til mikillar fyrirmyndar og þannig voru Sólveig Eiðs og Laufey Halldórs ólseigar í bakvarðarstöðunum. Ana Lucia var sem fyrr segir í miklum ham í markinu en það var skarð fyrir skildi að markaskorarinn Emily Key varð að fara af velli snemma í síðari hálfleik, eftir að hafa lent í harðri tæklingu rétt fyrir hálfleik, og því gekk verr að halda boltanum ofarlega á vellinum þegar hún var ekki lengur til staðar.

Lið Þróttar hefur verið á mikilli siglingu í síðustu leikjum og hefði með sigri í gær komist á topp 1. deildarinnar. Stigið dugar þeim til að jafna við Selfoss á toppnum en úrslitin sennilega slæm fyrir bæði lið því Stólarnir hefðu þurft á öllum þremur stigunum að halda í botnbaráttunni. Þær eru nú næstneðstar en næsti leikur er einmitt gegn botnliði Víkinga í Ólafsvík sem eru stigi neðar en eiga tvo leiki til góða á Stólastúlkur. Með sigri næðu stelpurnar að setja pressu á liðin fyrir ofan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir