Stólastúlkur unnu í gær

Það var blíðskaparveður í gær þegar Tindastóll, sigurvegarar C riðils 1. deildar kvenna, tóku á móti sameiginlegu liði Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis á Sauðárkróksvelli. Fyrir leikinn höfðu Stólarnir tryggt sér fyrsta sætið í riðlinum með 21 stig en þær austfirsku sátu sem fastast í næstneðsta sæti með 10 stig. Það var sama hvernig leikurinn færi, sætaskipan breyttist ekkert.

Það var strax ljóst hvort liðið væri sterkara á vellinum og myndi skapa sér hættulegri færi og fara með sigur. Tindastóll stjórnaði spilinu og óð í færum. Það var strax á 16. mínútu að Hugrún Pálsdóttir kom heimastúlkum yfir eftir að boltinn barst til hennar úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs andstæðinganna. Skömmu síðar eða á 23. mínútu bætti Kasey Wyer öðru marki við fyrir Stóla sem kom upp úr hornspyrnu og staðan vænleg, 2-0. Níu mínútum síðar bætti  Laufey Harpa Halldórsdóttir þriðja markinu við eftir gott skot utan  vítateigs og sveif boltinn yfir Steinunni Lilja Jóhannesdóttur markmann Astfirðinga sem kom engum vörnum við. Fleiri mörk komu ekki frá Stólastúlkum í leiknum þrátt fyrir mörg góð færi en þær Austfirsku settu eitt rétt fyrir leikslok þegar Sara Atladóttir gerði vel og setti boltann fram hjá Laufeyju Rún Harðardóttur í marki Stóla sem annars hefur átt fína leiki í markinu eftir að hún leysti Charlotte Elisabeth Ferguson af en hún hefur átt við meiðsli að stríða í baki.

   Það hefur verið mikil leikjatörn hjá stelpunum undanfarið þar sem þær hafa leikið fjóra leiki á níu dögum og fimmti leikurinn fer fram á morgun á Húsavík en hann er jafngframt sá síðasti í riðlinum. Við tekur svo úrslitakeppni annarar deildar með útileik þann þriðja september nk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir