Stolið úr bátum og reynt að sökkva

Frá smábátahöfninni á Sauðárkróki. Mynd: PF
Frá smábátahöfninni á Sauðárkróki. Mynd: PF

Eigandi smábáts á Sauðárkróki varð fyrir því í síðustu viku að öllu lauslegu var stolið sem ofanþilja var í bátnum en báturinn liggur alla jafna við smábátahöfnina á Sauðárkróki. Hefur hann áhyggjur af umgengni þeirra sem fara í smábáta í leyfisleysi í höfninni og valda þvílíkum skaða.

„Ég varð fyrir því að farið var um borð í bátinn minn og þaðan öllu stolið sem var ofan þilja s.s. veiðarfærum, hnífum, og ýmsu smá dóti sem fylgja um borð í venjulegum trillum,“ segir Björgvin Guðmundsson eigandi bátsins sem um ræðir. Hann segist hafa verið með bát í höfninni sl. 15 ár og aldrei orðið fyrir neinu svona athæfi fyrr.

Skorið var á björgunarbát í eigu siglingarklúbbsins og mildi þykir að hann hafi ekki sokkið þar sem mótorinn hefði getað skemmst. Mynd:PF

   Einar Gíslason hafnarstjóri segir þetta mál það eina sem komið hefur inn á hans borð. Um 50 bátar liggja við festar við smábátahöfnina á Sauðárkróki, ýmist á læstu svæði eða ólæstu og var bátur Björgvins á því svæði. Öryggismyndavélar eru á svæðinu og er verið að kanna hvort hægt sé að greina mannaferðir þar.

   Siglingaklúbburinn Drangey hefur aðsetur við smábátahöfnina og hefur séð um siglinganámskeið á sumrin. Margir bátar fylgja starfseminni og segir Ingvar Páll Ingvarsson eins klúbbmeðlima að alla jafna fái bátarnir að vera í friði en þeir eru alla jafna dregnir á land eftir notkun. Þó hafi verið skorið gat á öryggisbát sem lá við festar og við lá að sykki. „Betur fór en á horfðist því ekki fór loft úr öllum hólfum. Ef báturinn hefði sokkið hefði tjónið hlaupið á hundruðum þúsunda vegna hugsanlegra skemmda á mótornum,“ segir Ingvar Páll. Hann segir að bátar siglingaklúbbsins fái yfirleitt að vera í friði en stöku sinnum eru kajakarnir teknir. Þeir hafa flestir fundist aftur, ýmist í fjörunni, eða fljótandi við hafnarsvæðið en eins báts sé þó saknað. Ingvar segir að þetta fái menn til að velta fyrir sér að hafa starfsemina á afgirtu svæði.

Athafnasvæði siglingaklúbbsins Drangeyjar er við smábátahöfnina og mikið um að vera á sumrin þegar siglinganámskeið standa yfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir