Stóra upplestrarkeppnin í Skagafirði

Verðlaunahafarnir Þórgunnur, Vignir Nói og Lydía. Mynd:FE
Verðlaunahafarnir Þórgunnur, Vignir Nói og Lydía. Mynd:FE
Allir keppendur fengu viðurkenningu.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Skagafirði var haldin í gær í sal Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Þar áttu allir grunnskólar í firðinum glæsilega fulltrúa auk þess sem nemendur Tónlistarskóla Skagafjarðar úr Grunnskólanum austan Vatna fluttu tónlist milli atriða.

Laufey Leifsdóttir, umsjónarmaður keppninnar í héraði, setti hátíðina en þetta mun vera í 18. skiptið sem þessi keppni er haldin hér. Undirbúningur keppninnar hefst á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, og allir nemendur 7. bekkjar fá markvissa þjálfun í upplestri og framsögn þar til skólarnir velja sína fulltrúa sem oftast er gert í lok febrúar eða byrjun mars. Þannig snýst þetta verkefni fyrst og fremst um þjálfun allra nemenda þó nokkrir séu svo valdir að lokum til að keppa sem fulltrúar síns skóla.

Að þessu sinni lásu nemendur texta úr bókinni Strokubörnin á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn, ljóð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson og að lokum ljóð að eigin vali. Óhætt er að segja að allir lesarar hafi flutt texta sína með stakri prýði.

Varamenn lásu ljóð og fengu blóm í viðurkenningarskyni.

Fyrsta sætinu hampaði Vignir Nói Sveinsson úr Grunnskólanum austan Vatna, í öðru sæti varð Þórgunnur Þórarinsdóttir úr Árskóla og í þriðja sæti Lydía Einarsdóttir úr Varmahlíðarskóla.

Allir þátttakendur fengu, sem viðurkenningu fyrir þátttökuna, sérprentaða ljóðabók eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og auk þess fengu verðlaunahafarnir þrír peningagjöf.

Til hamingju með árangurinn krakkar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir