Styttist í lokun leikskólans á Hofsósi

Frá Hofsósi. Mynd: KSE.
Frá Hofsósi. Mynd: KSE.

Leikskólamál á Hofsósi hafa verið til skoðunar í nokkurn tíma eftir að upp komst um mygluvandamál í núverandi húsnæði Barnaborgar á Hofsósi. Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra hefur gefið út að starfsleyfi leikskólans falli úr gildi þann 1. maí. nk. svo tíminn er orðinn naumur. Eftir nokkra þrautagöngu sveitarfélagsins við að finna tímabundið húsnæði fyrir starfsemina hefur ein formleg ákvörðun verið tekin í byggðarráði um að koma leikskólanum tímabundið fyrir í Félagsheimilinu Höfðaborg. Sú lausn hefur mætt talsverðri andstöðu á staðnum og samkvæmt heimildum Feykis er nú unnið að því að skoða aðrar leiðir m.a. að flytja leikskólann tímabundið í einbýlishús á Hofsósi.

Það ferli tekur tíma og þarf að kanna hvort húsnæðið hentar, umsagnaraðilar heimili starfsemi leikskóla í íbúðarhúsi og hefja grenndarkynningu sem tekur fjórar vikur eftir að samþykki hefur verið gefið fyrir starfseminni. Ef þessi nýju áform ganga upp þá mun sveitarstjórn breyta ákvörðun sinni.

Búið er að gera hönnunarteikningu á viðbyggingu við grunnskólann á Hofsósi þar sem  leikskólanum verður komið fyrir. Verið er að rýna hana og annar undirbúningur að hefjast.  Ekki þótti fært að breyta núverandi húsnæði grunnskólans til að leysa húsnæðisþörf leikskólans tímabundið vegna kostnaðar og þar sem ekkert af þeim breytingum gætu nýst við endurnýjun grunnskólans sem framundan er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir