SUPERSTAR á Hvammstanga um páskana

Frá æfingur á SUPERSTAR. Mynd: Norðanátt.
Frá æfingur á SUPERSTAR. Mynd: Norðanátt.

Leikfélög UMF Grettis og Kormáks munu setja upp sýninguna SÚPERSTAR í Fèlagsheimilinu Hvammstanga um komandi páska. Leikstjórn er í höndum Sigurðar Líndal Þórissonar, hljómsveitastjórn í höndum Daníels Geirs Sigurðssonar og sér Ingibjörg Jónsdóttir um skipulagningu. Frá þessu segir á vef Norðanáttar.

Öll hlutverk, hvort sem þau snúa að tónlist, leik eða framkvæmd í kringum sýninguna, eru í höndum heimafólks. Leikstjórinn, Sigurður Líndal, er nýfluttur í heimahagana eftir að hafa dvalist í London í 20 ár. Hann er menntaður leikari og hefur leikstýrt fjölda sýninga. Hann segir leikstjórnaráhugann alltaf hafa verið til staðar en erfitt sé að segja til um hvernig hann hafi kviknað. „Ætli maður telji sig ekki hafa einhverja heildarsýn á leikhús sem manni finnst að maður þurfi að koma til skila,“ segir Sigurður í viðtali á vef Norðanáttar.

Sigurður segist ekki hafa leikstýrt Jesus Christ Superstar áður né neinum af þekktustu söngleikjunum. „Ég hef forðast þá af bestu getu hingað til, enda finnst mér þeir yfirleitt annaðhvort væmnir eða yfirdrifnir, ef ekki hvorutveggja. Súperstar er oftast réttu megin við línuna. Ég hef hinsvegar oft leikstýrt verkum með söngvum og dönsum áður," segir Sigurður ennfremur.

Allir þeir þátttakendur sem skipa leikhlutverk og tónlistarhlutverk sýningarinnar eru áhugafólk en Sigurður segir vinnu leikstjórans vera þá sömu, hvort sem um áhugafólk eða menntaða leikara sé að ræða. „Þessi vinna er í sjálfu sér alltaf eins; maður reynir að koma því þannig fyrir að allir séu í hámarksafköstum þegar að til sýninganna kemur, miðað við þá hæfni og reynslu sem hver einstaklingur hefur á þeirri stundu,“ segir hann.

Að sögn Ingibjargar hafa æfingar gengið mjög vel. Upphaflega fóru æfingar fram í sitthvoru lagi; kórinn æfði með Pálínu Fanney Skúladóttur og einsöngvarar með hljómsveit. „Um miðjan janúarmánuð hittist svo allur hópurinn og hafa síðan þá verið reglulegar æfingar undir stjórn leikstjórans.“ Nú eru sex vikur þar til SÚPERSTAR verður frumsýnt og spenna farin að gera vart við sig, þó Ingibjörg segist „sultuslök.“ „Maður er nokkuð rólegur ennþá en ég hugsa að með tímanum muni spennan magnast. Þetta verður í það minnsta mjög gaman,“ segir Sigurður að lokum, í viðtali á vef Norðanáttar.

Sýningardagar eru miðvikudagurinn 23. mars, föstudagurinn langi 25. mars, laugardagurinn 26. mars og annar í páskum 28. mars. Sýningarnar hefjast kl. 21:00 og er miðaverð 4.000 kr. Opið er fyrir miðapantanir á sýninguna í síma 455-2506 hjá Ingibjörgu kl. 08:00-12:00 og 13:00-16:00 eða á netfanginu umf.grettir@gmail.com til 20. mars n.k.

Sjávarborg mun bjóða uppá kvöldverðartilboð öll sýningarkvöld. Borðapantanir eru í síma 451-3131. Hægt er að velja á milli tveggja mismunandi 3ja rétta matseðla:

Páskalamb:
– Grillaðar risarækjur í fersku mangó salsa
– Lambalund, sætar kartöflur og soðsósa
– Vanillubúðingur, rjómi og súkkulaðisósa
Verð: 5.990 kr á mann

Páskakanína:
– Hrefnu tataki með brenndri smjördressingu
– Hægelduð kanína á hrísgrjónabeði
– Súkkulaði kaka
Verð: 6.990 kr á mann

Norðanátt kíkti á æfingu í janúarmánuði en þá var æft í Félagsheimilinu Ásbyrgi, en nú hafa æfingar færst yfir í Félagsheimilið Hvammstanga. Fleiri myndir er að finna á vef Norðanáttar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir