Súrt tap í sex stiga leik á Króknum

Kenny Hogg í baráttunni á vítateig gestanna. MYND: ÓAB
Kenny Hogg í baráttunni á vítateig gestanna. MYND: ÓAB

Stólarnir máttu bíta í það súra epli að fara hallloka gegn liði Fjarðabyggðar sem heimsótti Krókinn á heitasta degi sumarsins. Stólarnir voru klárlega sterkara liðið í leiknum, enda einum fleiri í rúman klukkutíma, en það voru gestirnir sem nýttu færin sín af kostgæfni og uppskáru þrjú stig og settu botnbaráttu 2. deildar í algjört uppnám. Lokatölur 2-3 fyrir Fjarðabyggð.

Það var um 24 stiga hiti og þíður sunnanvindur þegar leikurinn hófst í dag. Stólarnir voru enda í sólskinsskapi með notalegan vindinn í bakið og Ísak Sigurjónsson var snöggur að koma sínum mönnum yfir en á 5. mínútu negldi hann boltanum í bláhornið. Gestirnir reyndu að svara að bragði og áttu nokkrar efnilegar sóknir. Á 17. mínútu gekk Tindastólsmönnum illa að koma boltanum frá marki sínu og það endaði með því að Mbang Ondo fékk boltann í dauðafæri og hann jafnaði metin af öryggi. Leikurinn var í jafnvægi eftir þetta en Stólarnir þó heldur meira með boltann. Á 28. mínútu fékk lið Fjarðabyggðar hornspyrnu og í kjölfarið á henni gaf Georgi Karaneychev Ragnari olnbogaskot sem fór ekki framhjá ágætum dómara leiksins sem sýndi kappanum umsvifalaust rauða spjaldið. Þrátt fyrir að vera einum fleiri gekk Stólunum illa að skapa sér færi en Kenny Hogg fór þó illa með eitt þegar hann komst inn fyrir vörn Fjarðabyggðar en setti boltann framhjá. Staðan 1-1 í hálfleik.

Stólarnir ætluðu bersýnilega að blása til sóknar í síðari hálfleik, vægur vindurinn búinn að snúast og allt í þessu fína. En þeir voru varla búnir að hefja leik þegar Enrique Rivas komst inn á teig Tindastólsmanna og beygði boltann laglega í fjærhornið án þess að Brentton kæmi vörnum við.  Þetta var á 47. mínútu og vörnin úti á þekju. Rivas var síðan aftur á ferðinni sex mínútum síðar þegar hann fiskaði aukaspyrnu við vítateigshorn Stólanna. Skotið setti hann síðan í vegginn og Brentton, sem var á leið í nærhornið, var strandaður þegar boltinn snérist í fjærhornið.  Algjört kjaftshögg og sannarlega ekki í takti við gang leiksins – tvær sóknir, tvö mörk!

Næsta hálftímann sóttu Stólarnir án afláts en sem fyrr gekk þeim illa að opna vörn andstæðinga sinna. Mikið var reynt af fyrirgjöfum sem voru flestar slæmar og þá var mikið skotið fyrir utan teig en það er ólíklegt að menn skori ef þeir hitta ekki markið. Fannar Kolbeins minnkaði muninn með hörkuskoti eftir ágætt spil þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Nú hentu Stólarnir öllu í sóknina til að leita að jöfnunarmarki og þá opnaðist leikurinn fyrir gestina sem áttu hörkuskalla í þverslá. Stólarnir pressuðu og pressuðu og fengu endalausar hornspyrnur en markið lét á sér standa. Svekkjandi niðurstaða því tap á heimavelli.

Það var enginn sem stóð upp úr í liði Tindastóls í dag. Kenny, sem verið hefur öflugasti maður liðsins í sumar, náði ekki að ógna að ráði og gæði vantaði í spil Stólanna. Þeir héldu boltanum ágætlega í síðari hálfleik, enda voru gestirnir ánægðir með að liggja til baka og verja vítateiginn sinn, en lokasendingar eða skot voru hreinlega ekki nógu góðar. Óhætt er að segja að liðið hafi saknað Benna sem ekki var með í dag.

Næsti leikur er gegn toppliði Njarðvíkinga sem eru, ásamt Seyðfirðingum, með besta liðið sem spilaði hér á Króknum í fyrri umferð 2. deildar. Kenny Hogg verður ekki með í þeim leik þar sem hann fékk að líta rauða spjaldið í dag, eða öllu heldur tvö gul, það síðara skömmu fyrir leikslok en þá taldi dómarinn hann hafa reynt að fiska víti með leikaraskap. Nú er lið Tindastóls með 15 stig í níunda sæti 2. deildar, einu stigi meira en lið KV og Fjarðabyggðar. Lið Sindra frá Hornafirði er hinsvegar nánast fallið, situr á botninum með þrjú stig. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir