Sveitarfélagið Skagafjörður kaupir rafmagnsbíl

Rafmagnsbíll Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Mynd: Skagafjordur.is.
Rafmagnsbíll Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Mynd: Skagafjordur.is.

Á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar er sagt frá því að í sumar hafi sveitarfélagið fest kaup á nýjum Volkswagen e-Golf rafmagnsbíl. Það var Ingvar Gýgjar Sigurðarson, verkefnastjóri hjá sveitarfélaginu sem tók við bílnum fyrir hönd sveitarfélagsins og ók honum norður með viðkomu í Staðarskála þar sem hann bætti við rafhleðsluna. 

„Bílinn hefur allt að 300 km drægni og mun nýtast starfsfólki sveitarfélagsins sérstaklega vel til að komast á milli staða innan sveitarfélagsins. Nú þegar hefur bíllinn nýst starfsfólki allra sviða sveitarfélagsins, þ.e. fjölskyldusviði, fjármála- og stjórnsýslusviði og veitu- og framkvæmdasviði,“ segir í frétt Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Á heimasíðu Orku náttúrunnar, www.on.is, má nálgast margvíslegan fróðleik varðandi rafbílavæðingu og rekstur þeirra. Þar kemur fram að nú eru alls 19 hlöður á landinu, þar af þrjár á Norðurlandi vestra; í Staðarskála, á Blönduósi og við tengivirki RARIK og Landsnets rétt ofan við Varmahlíð, og innan tíðar mun verða gerlegt að fara allan hringveginn á rafmagnsbíl. Þann 1. október sl. voru skráðir raf- og tengiltvinnbílar á Íslandi samtals 3.974 og þeim fer sífellt fjölgandi. Kostirnir við notkun rafbíla eru margir, ekki hvað síst fyrir andrúmsloftið þar sem þeir brenna ekki jarðefnaeldsneyti og losa þar af leiðandi ekki CO2 út í andrúmsloftið. Einnig eru þeir umtalsvert ódýrari í rekstri en hefðbundir bílar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir