Team Drangey tekur þátt í WOW Cyclothon 2017

WOW Cyclothon, sem er stærsta götuhjólreiðakeppni á íslandi, fer fram dagana 20.-23. júní næstkomandi. Hjólað er hringinn í kringum Ísland með boðsveitarformi þar sem liðsfélagar skipta á milli sín kílómetrunum 1358. Team Drangey, sem Skagfirðingar skipa, tekur þátt í ár. Að sögn Péturs Inga Björnssonar eins úr Drangeyjarhópnum er grunnur liðsins úr því liði sem tók þátt 2015 en hét þá Team Tengill. „Við erum fimm úr því liði að fara að keppa aftur og fimm bætast við. Við tókum ákvörðun um að halda þessu á Króknum og menn héðan eru í liðinu fyrir utan staðarhaldarann á Hólum.“

Nafnið Tem Drangey kemur frá hjólafélagi fyrir almenning sem var stofnað á vormánuðum út frá siglingaklúbbnum Drangey og segir Pétur að til standi að hjóla einu sinni í viku eða hálfs mánaðar fresti í sumar og jafnvel er stefnt á einhver mót. „Það er mikil vakning á hjólreiðum í landinu og það er ekkert minna á Króknum. Það eru margir að hjóla en kannski bara þeir allra klikkuðustu sem taka þátt í Cyclothon,“ segir Pétur og bendir á að keppnin snúist um tvennt. „Fyrst er að fara, hafa gaman og klára keppnina og svo að það eru áheit þar sem hægt er að heita á liðið og það er kannski það sem við viljum koma til fólksins. Áheitin fara óskipt til einhvers málefnis hverju sinni,“ segir Pétur en í ár verður safnað fyrir Slysavarnarfélagið Landsbjörgu sem mun úthluta söfnunarfénu til Björgunar- og slysavarnarsveita landsins. Pétur segir björgunarsveitir í Skagafirði njóta áheitanna ekki síst vegna þess að lið úr Skagafirði sé að keppa.

Drangey mun taka þátt sem 10 manna lið og skiptast liðsmenn á að hjóla og keyra bílinn

Í liðinu eru þeir Yngvi Yngvason, Páll Ólafsson, Sigurður Ingi Ragnarsson, Gunnar Ingi Gunnarsson, Norbert Ferencson, Kári Björn Þorsteinsson, Eiður Baldursson, Rafnkell Jónsson og Hallbjörn Björnsson og Jón Arnar Pétursson sem kom inn sem varamaður fyrir Pétur föður sinn sem slasaðist á æfingu og getur ekki keppt. Pétur mun hins vegar ekki verða langt undan þar sem hann verður fjölmiðlafulltrúi liðsins.

Stífar æfingar hafa staðið yfir síðustu misseri og gengið mjög vel, fyrir utan fyrrgreint óhapp þar sem Pétur féll i götuna á miklum hraða en þeir æfa einir sér eða í smáum hópum. Fyrir skömmu fóru fjórir saman til Tenerife og tóku ágætis upphitun. Þar hjóluðu þeir öll helstu fjöll og var mjög gaman og klárlega til eftirbreytni segir Pétur og bætir við að mikið hafi verið hjólað hér heima.

Fyrsta sameiginlega æfingin og skyldumæting var um síðustu helgi en þá var hjólaður hringur um Skagafjörð og voru skiptingar æfðar og kerran prófuð sem smíðuð var sérstaklega fyrir keppnina. Pétur segir að miklu skipti að þægilegt sé að taka hjólin af og setja á, á sem skemmstum tíma.

Ræsing A og B flokka fer fram síðdegis þann 21. við Egilshöll og hjólað norður í land. Búast má við Team Drangey í Skagafirðinum snemma morguninn eftir og eru allir hvattir til að fylgjast með.

Rétt er að vara ökumenn við því að vera á ferðinni hafi þeir ekki þolinmæði fyrir smá töfum á vegum vegna keppninnar því óneitanlega verður smá rask af fjölda hjólreiðamanna sem verða á ferðinni á Þjóðvegi 1 þessi dægur.

Allir eru hvattir til að heita á liðið, muna að margt smátt gerir eitt stórt ... Sjá HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir