Telja fjölmörgum spurningum ósvarað um sýndarveruleikasýningar á Sauðárkróki

Á fundi byggðarráðs Svf. Skagafjarðar í gær var tekist á um samstarfssamning um uppbyggingu sýndarveruleikasýningar á Sauðárkróki og telja þau Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir af Skagafjarðarlista og Bjarni Jónsson Vinstri grænum, fjölmörgum spurningum sé ósvarað um verkefnið meðal annars af því hversu takmarkaðar upplýsingar hafa verið veittar.

Vilja þau Gréta Sjöfn og Bjarni að vandlega verði farið yfir lagaleg atriði, t.d. hvort sveitarfélagið hafi fullnægjandi lagaheimildir til þessara ráðstafana og hvort stuðningur þess feli í sér ólögmæta fjárhagsaðstoð við einkaaðila í samkeppnisrekstri.

„Við óskum eftir því að þessi atriði verði skoðuð vandlega og niðurstöður athugana verði kynntar fyrir kjörnum fulltrúum áður en málið verður afgreitt af hálfu sveitarfélagsins,“ segja þau í bókun sem gerð var á fundinum.

Stefán Vagn Stefánsson B-lista og Sigríður Svavarsdóttir D-lista segja hins vegar að engum gögnum hafi verið haldið frá fulltrúum í byggðarráði varðandi samninga við Sýndarveruleika ehf. þar sem samningurinn sem um ræðir hafi verið samþykktur á fundi ráðsins 2. mars s.l. án athugasemda fulltrúa minnihlutans í sveitarstjórn.

Eftirfarandi er tekið úr fundagerð byggðarráðs Skagafjarðar í gær 12. apríl 2018:

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Bjarni Jónsson óska bókað:

Við undirrituð lýsum áhyggjum okkar af málsmeðferð sveitarfélagsins að því er varðar samning þess um uppbyggingu og stuðning við Sýndarveruleika ehf. Teljum við að fjölmörgum spurningum sé ósvarað um verkefnið sem helgast meðal annars af því hversu takmarkaðar upplýsingar hafa verið veittar. Í þessu sambandi bendum við á nauðsyn þess áður en lengra er haldið við afgreiðslu málsins að farið sé vandlega yfir lagaleg atriði, t.d. hvort sveitarfélagið hafi fullnægjandi lagaheimildir til þessara ráðstafana og hvort stuðningur þess feli í sér ólögmæta fjárhagsaðstoð við við einkaaðila í samkeppnisrekstri. Þá þarf sérstaklega að gæta að því að farið sé að leikreglum stjórnsýslulaga, þannig að íbúarnir og fyrirtæki í sveitarfélaginu njóti jafnræðis þegar kemur að ráðstöfun eigna og aðgangi að fjármunum og auðlindum sveitarfélagsins. Við óskum eftir því að þessi atriði verði skoðuð vandlega og niðurstöður athugana verði kynntar fyrir kjörnum fulltrúum áður en málið verður afgreitt af hálfu sveitarfélagsins.

Þá undrumst við þá leynd sem farið er fram á um samning sveitarfélagsins við Sýndarveruleika ehf. Óskum við eftir ítarlegum rökstuðningi fyrir þeirri kröfu að upplýsingum um innihald samninga sem fela í sér ráðstöfun eigna sveitarfélagsins og fjárhagsskuldbindingar til langs tíma skuli haldið leyndum. Við óskum meðal annars eftir því að rökstutt sé á hvaða lagagrundvelli þessi krafa um þögn er byggð. Enn fremur hvaða sjónarmið um meðferð persónuupplýsinga réttlæti að leynt sé farið með hvað opinber aðili eins og sveitarfélagið leggi verkefninu og fyrirtækinu til fjárhagslega vegna uppbyggingar þess og starfsemi.

Eins og staðan er nú virðist til þess ætlast að sveitarstjórnarfulltrúar samþykki að sveitarfélagið undirgangist verulegar skuldbindingar og leggi fram umtalsvert fé, án þess fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir. Á sama tíma virðist þess krafist að upplýsingum sé haldið frá almenningi. Við álítum að það sé skylda okkar sem fulltrúa íbúa í sveitarstjórn að fara fram á að framangreindum spurningum sé svarað og að fullnægjandi upplýsingar séu veittar um málið, þannig að ekki séu lagðar hömlur á að við getum rækt skyldur okkar gagnvart íbúum sveitarfélagsins þegar verið er að ráðstafa eignum og fjármunum þess.

Bjarni Jónsson VG og óháðum

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir K - lista

 

Engum gögnum hefur verið haldið frá fulltrúum í byggarráði varðandi samninga við Sýndarveruleika ehf. Samningurinn sem um ræðir var samþykktur á fundi ráðsins 2. mars s.l. án athugasemda fulltrúa minnihlutans í sveitarstjórn. Í vinnsluferli samningsins komu aldrei fram efasemdir eða athugasemdir frá fulltrúum minnihlutans hvort umræddur samningur stæðist lög og verður það að teljast sérstök vinnubrögð að taka þátt í vinnslu á umræddum samningi og koma svo eftir að hafa samþykkt umræddan samning og gagnrýna innihald hans.

Stefán Vagn Stefánsson B-lista

Sigríður Svavarsdóttir D-lista

 

Bjarni Jónsson óskar bókað:

Öll málsmeðferð er á ábyrgð meirihluta sveitarstjórnar.

 

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óskar bókað:

Málið er enn á vinnslustigi og ég tel eðlilegt að spyrja spurninga.

Samþykkt var að gera fundarhlé kl. 10:33.

Fundi fram haldið kl. 11:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir