Þuríður Harpa kjörin formaður ÖBÍ

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.  MYND AF SÍÐU ÖBÍ
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. MYND AF SÍÐU ÖBÍ

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, varaformaður Sjálfsbjargar og framkvæmdastjóri Nýprents á Sauðárkróki, var kjörin nýr formaður Öryrkjabandalags Íslands á aðalfundi samtakanna í morgun. Þuríður Harpa tekur við af Ellen Calmon, sem hefur verið formaður bandalagsins frá árinu 2013. Þuríður Harpa fékk 68 atkvæði í formannskjörinu en mótframbjóðandi hennar, Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland, fékk 58 atkvæði.

Þuríður Harpa er með BA-próf í grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Auk þess lauk hún diplómanámi í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2015. Síðustu þrettán ár hefur hún gegnt starfi framkvæmdastjóra Nýprents á Sauðárkróki sem meðal annars gefur út Sjónhornið og Feyki auk þess að fást við ýmis önnur prent- og hönnunarverkefni.

Í frétt á heimasíðu ÖBÍ segir að frá árinu 2011 hefur Þuríður Harpa verið formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði og er í dag varaformaður landssambands Sjálfsbjargar. Þá situr hún einnig í stjórn Sjálfsbjargarheimilisins. Hún hefur einnig starfað í vinnuhópum á vettvangi ÖBÍ þar sem fjallað hefur verið um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá hefur Þuríður Harpa átt sæti í málefnahópi ÖBÍ um sjálfstætt líf og komið fram á ýmsum málþingum og ráðstefnum um málefnið.

„Ég mun hafa samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi í mínum störfum,“ er haft eftir Þuríði Hörpu í frétt ÖBÍ „Samninginn þurfum við að fá lögfestann til að hann veiti okkur þau réttindi og þann slagkraft sem þarf í mannréttindabaráttunni. Fátækt, útskúfun, mismunun eða misrétti á ekki að líðast. Þá legg ég áherslu á lögfestingu á NPA (notendastýrðri persónulegri aðstoð) og baráttu fyrir bættum kjörum örorkulífeyrisþega, fatlaðs fólks og langveikra,“ segir Þuríður Harpa einnig.

Feykir óskar Þuríði Hörpu til hamingju með vegsemdina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir