Tíminn sem aldrei týnist

Áskorandi Helga Sigurðardóttir Grófargili Skagafirði

Þannig týnist tíminn segir í kvæðinu eftir Bjartmar og sumir vitna í það þegar þeir tala um það sín á milli hversu hratt tíminn líður. Vissulega líður tíminn hratt í nútímaþjóðfélagi, stundum svo hratt að við munum varla hvað við vorum að gera í gær. Þá er ástæða til þess að staldra við, vera til staðar, hlusta og njóta augnabliksins með þeim sem standa manni næst.

Tíminn sem er liðinn týnist í raun aldrei því hann geymir minningar, bæði ljúfar og sárar. Þær týnast ekki, gleymast aldrei. Við breytum ekki því liðna en við getum valið að upphefja góðu minningarnar og miðla þeim áfram til yngri kynslóða.

Ég er farin næstum fjörtíu ár aftur í tímann. Ég stend í búrdyrunum hjá ömmu og afa í Hveragerði og horfi vonaraugum inn í búrið. Glugginn er opinn og gardínan blaktir örlítið í kvöldgolunni, ég heyri niðinn í Varmánni fyrir utan og það er kveikt ljós inni í búrinu því þetta er síðla sumars.  Lyktin er blönduð ferskleika kvöldsvalans sem berst inn um gluggann og öllu því góðgæti sem amma á í búrinu. Ég veit að kvöldkaffið verður súkkulaðikaka og ísköld mjólk, það besta sem ég fæ hjá ömmu. Þessi minning hefur fylgt mér alla tíð frá því ég var lítil stelpa og eflaust hef ég upplifað sömu aðstæður ótal sinnum vegna þess að við fórum að minnsta kosti tvisvar á ári til ömmu og afa í Hveragerði. Og enn er ég stödd í fortíðinni, en núna í nágrenni við æskuheimilið, í Brautarholti hjá ömmu.

Við erum í garðinum hennar ömmu og hún eltir mig um allt. Ég skríki og hlæ og pissa næstum því á mig í öllum látunum. Eftir eltingaleikinn förum við amma inn og ég fæ uppáhaldssmákökurnar mínar hjá henni, ískaldar og góðar randalínur. Amma hefur alltaf nógan tíma. Við sitjum í eldhúsinu og hún segir mér sögur af huldufólkinu í Hegranesinu þar sem hún ólst upp. Þegar ég fer heim nær amma í stóru svörtu töskuna sína og tekur upp úr henni brjóstsykurspoka og gefur mér. Við kyssumst að skilnaði og ég held heim á leið sæl og glöð með brjóstsykur í munni.

 Dýrmætar minningar um tíma sem er löngu liðinn en þó engan veginn týndur. Þennan tíma áttum við saman ég og ömmur mínar og búrin þeirra beggja eru mér sérstaklega hugleikin því þar var ævinlega eitthvað gott að fá.

 Það hversdagslega i lífinu er í raun svo mikilvægt, spjall við eldhúsborðið um daginn og veginn eða liðna tíð. Sögur mömmu og pabba þegar þau voru ung.

Ég nýt þeirra stunda þegar foreldrar mínir segja sögur frá fyrri tíð. Mamma segir mér frá því þegar hún var lítil stelpa í Hveragerði og hjálpaði til við garðyrkju- og bústörf. Hún rifjar upp minningar frá því  þegar hún dvaldi víða um heim, ýmist við nám eða störf.

Pabbi segir mér sögur frá því hann var lítill drengur í Brautarholti, þegar hann fékk nýbakað rúgbrauð með rúllupylsu og þeir bræður hlupu suður fyrir bæ til að borða það í sólinni. Þegar hann var nemandi á Hólum og vann fyrir náminu á ýmsa vegu, sá um býtibúrið á staðnum og fleira. Þegar hann og mamma tóku við rekstri hótelsins í Varmahlíð og ótal sögur sem tengjast verunni þar.

Þegar hlustað er á frásagnir sem þessar, skapast vettvangur fyrir notalega samveru og síðar minningar sem ylja.

Við stjórnum ekki klukkunni sem tifar nótt sem dag, en við getum flest öll valið hvernig við notum frítíma okkar. Þann tíma ættum við að nýta vel því  sá tími er dýrmætur og týnist aldrei.

Ég skora á Þórdísi Sigurðardóttur í Sólheimagerði að taka við næsta áskorendapenna.

Áður birst í 41. tbl. Feykis 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir