Umhverfismál í Skagafirði

Ég hef verið svo heppin að vera formaður umhverfis- og samgöngunefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar síðustu tvö kjörtímabil. Á þessum tíma hefur margt gerst í umhverfismálum í Skagafirði þótt sumt sé ekki komið eins langt á veg og maður hefur viljað.

Á þessum tíma í umhverfis- og samgöngunefnd hafa allir flokkar unnið vel saman og lítill sem enginn ágreiningur verið um áhersluatriðin. Við, nefndarmenn úr öllum flokkum, höfum sinnt þessum málaflokki vegna áhuga okkar á umhverfis- og samgöngumálum í Skagafirði og höfum öll lagt okkur fram við að starfa af bestu getu fyrir samfélagið sem við búum í. Stundum finnst mér vissulega að hér sé allt í rusli. En svo minni ég mig á allan árangurinn sem náðst hefur í gegnum árin og þá staðreynd að oft gerast góðir hlutir hægt.

Áhugi frambjóðenda Vinstri grænna og óháðra á málaflokknum vekur ánægju. Ég get tekið undir margt sem Inga Katrín D. Magnúsdóttir frambjóðandi flokksins tekur fram í grein sem birtist í Feyki á dögunum. Endurvinnslustöð Flokku sem opnaði hér á Sauðárkróki árið 2008 var ein af þeim fyrstu á landinu. Íbúar bæði á Sauðárkróki og í dreifbýlinu hafa haft tök á að flokka bæði heimilissorp sem og annan úrgang síðan þá. Greinarskrifari Vinstri grænna og óháðra heldur því hins vegar fram að dreifbýlið hafi alveg setið eftir í þessum málaflokki. Það er einfaldlega ekki rétt, eins og hann hefði áttað sig á hefði hann haft fyrir því að kynna sér málið. Þannig má nefna að tilraunaverkefni um sorpflokkun í dreifbýli hefur verið í gangi í Hegranesinu síðan í ágúst 2014 og sambærilegt tilraunaverkefni byrjaði á Hólum nú í vor.

Það hefur verið stefna Framsóknarflokksins að koma á almennri flokkun sorps í dreifbýli í sveitarfélaginu. Framkvæmd þess er hins vegar flókin og hefur þurft að taka mið af öðrum tengdum framkvæmdum í þessum málaflokki. Þar má t.d. nefna framkvæmdir við vöktuð gámasvæði í Varmahlíð og á Hofsósi. Þegar hefur verið sett upp gámasvæði á Hofsósi fyrir íbúana og til viðbótar kemur vaktað flokkunarsvæði og er stefnt að því að setja slíkt svæði á fjárhagsáætlun ársins 2019.

Vaktað gámasvæði í Varmahlíð var sett á fjárhagsáætlun ársins 2018. Unnið er að útboðsgögnum og er stefnt að því að klára framkvæmdir fyrir árslok. Þegar þessi tvö gámasvæði eru tilbúin þá verða gámar í dreifbýli fjarlægðir og flokkað rusl sótt heim á bæi.

Sveitarfélagið Skagafjörður var það fyrsta til að sækja dýrahræ af bæjum til urðunar og er nú annað tveggja sem það gera. Það er ekki greitt sérstaklega fyrir þessa þjónustu en kostnaður sveitarfélagsins vegna hennar var rúmar 12 milljónir á síðasta ári. Mikil pressa er á að hætta þessari þjónustu eða hefja gjaldtöku. Við höfum hins vegar ekki gert það því við teljum að þessi þjónusta sé mikilvæg og nauðsynleg til sveita. Þegar gámar í sveitunum verða fjarlægðir þarf að taka ákvörðun um fyrirkomulag gjaldtöku sorphirðu í dreifbýli en samkvæmt lögum eru þeir sem búa til sorpið skyldugir til að borga fyrir förgun þess. Það hafa verið miklar vangaveltur innan umhverfis- og samgöngunefndar um hvert besta og sanngjarnasta fyrirkomulagið sé í þessum efnum um leið og lögum er fylgt.

Frambjóðandi Vinstri grænna og óháðra segir í grein sinni „meirihluti sveitarstjórnar hefur verið aðgerðalítill í umhverfismálum og hefur verið fátt tíðinda af þeirra hálfu í umhverfis- og samgöngunefnd“. Mér þykir afskaplega leitt að heyra þetta. Ég tek undir það að endurvinnslumál eru sameiginlegt verkefni íbúa og sveitarstjórnar. Og við í nefndinni höfum tekið okkar hlutverk í þessum málaflokki mjög alvarlega. Við höfum ekki viljað fara út í framkvæmdir eða breytingar án þess að vinna heimavinnuna okkar vel. Samningamál eru hluti af þessari heimavinnu og eins og margt annað flókin mál til úrlausnar. Okkar áherslur ganga t.d. út á það að flokkun eigi sér stað í heimabyggð og að endurunnið sorp fari héðan úr okkar heimahöfn en að því sé ekki ekið mörg hundruð kílómetra. Sveitarstjórn verður jafnframt að meta hversu langt skuli ganga utan lögboðinnar þjónustu. Hvað varðar t.d. förgun húsgagna tel ég það vera utan okkar verkefna. Eflaust væri það tækifæri fyrir framtakssama einstaklinga sem vilja stofna nytjamarkað að gera slíkt með aðkomu sveitarfélagsins.

Sorp og sorphirða er ekki það eina sem umhverfis- og samgöngunefnd hefur í sinni umsjá. Undir nefndina falla hafnir Skagafjarðar og skipulagsmál þeirra, öll umhverfismál, samgöngumál, viðræður við Vegagerðina og Brunavarnir, svo fátt eitt sé nefnt. Í þessum málum höfum við heldur ekki setið aðgerðarlaus og meðal framkvæmda á tímabilinu hafa verið smábátahöfn á Sauðárkróki, dýpkun Sauðárkrókshafnar, Litli Skógur og skipulag og framkvæmdir þar, endurbætur á umhverfi Sauðár, stígagerð í Varmahlíð, flotbryggjur á Hofsósi, nýtt gámasvæði á Hofsósi, samningar um reiðvegi við Hestamannafélagið Skagfirðing, gangbrautarljós við Árskóla og hreinsunarátak í Hofsósi í samvinnu við Heilbrigðiseftirlitið, svo eitthvað sé nefnt. Einnig undirbúningur framkvæmda sem eru í sjónmáli eins og vöktuð gámasvæði í Varmahlíð og á Hofsósi.

Það dylst engum að alltaf má gera betur og verkefnin mættu stundum ganga hraðar fyrir sig. En við sem kjörnir fulltrúar verðum einnig að vinna innan fjárhagsramma hvers árs. Það er á okkar ábyrgð að forgangsraða og halda áfram að bæta samfélagið okkar. Ég vonast til þess að geta haldið áfram að starfa fyrir Skagafjörð í þessum málum og ég vona svo sannarlega að nefndin haldi áfram þeim verkefnum sem nú eru langt á veg komin. Ég vil einnig nota tækifærið til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem vinna í þessum málaflokkum hér í Skagafirði fyrir ötult og gott starf.

Sigríður Magnúsdóttir

Höfundur skipar 6. sæti á lista Framsóknarflokksins í Svf. Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir