Úrslit sveitarstjórnarkosninga á Norðurlandi vestra

Nú er rykið farið að setjast eftir spennandi sveitarstjórnarkosningar og fólk víða farið að spá í spilin með framhaldið. Sumstaðar náðu framboð hreinum meirihluta eins og í Húnaþingi, Blönduósi og Skagaströnd en í Húnavatnshreppi og í Skagafirði þurfa menn að setjast niður og ræða samstarf. Í Akrahreppi og Skagabyggð var óhlutbundin kosning.

Í Sveitarfélaginu Skagafirði urðu mikil tíðindi er hið nýja afl Byggðalistinn fékk góða kosningu, 20,94% og tvo menn inn með einu atkvæði fleira en Sjálfstæðisflokkur sem einnig fékk tvo menn 20,89%. Vinstri græn og óháð reynist næst stærsti flokkurinn með 24,28% atkvæða og einnig með tvo menn en Framsóknarflokkur fékk þriðjung atkvæða, 33,90% og missti tvo menn frá síðustu kosningum.

Á Blönduósi voru tveir listar í framboði og varð mjótt á munum þar sem L-listinn fékk 51,20% og fjóra menn en Óslistinn 48,80% og þrjá menn.

Á Skagaströnd fékk Skagastrandarlistinn afgerandi kosningu, 60,90% og þrjá menn en Við öll  39,10% og tvo menn.

Í Húnavatnshreppi buðu þrír listar fram og fékk Listi framtíðar flest atkvæði eða 41,42% og þrjá menn. N-listinn er nýtt framboð og náði fjórðungi atkvæða 25,00% og tvo menn og Nýtt afl fékk 33,58% og tvo menn.

Í Húnaþingi vestra voru tveir listar í boði og náði B-listi Framsóknar og annarra framfarasinna meirihluta atkvæða með 54,75% atkvæða og fjóra menn en Nýtt afl 45,25% og þrjá menn.

Í Skagabyggð var óhlutbundin kosning líkt og í Akrahreppi en þar skipa konur efsta sæti hvors lista. Dagný Rósa Úlfarsdóttir var kjörin í oddvitasætið í Skagabyggð og Hrefna Jóhannesdóttir í Akrahreppi.

UPPFÆRT:
Við yfirferð yfirkjörstjórnar kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað í samlagningu atkvæða í á kjördag, þannig að 10 atkvæðum var bætt við L-lista Byggðalistans og heildarfjölda greiddra atkvæða. L-listi ByggðaListans fékk því 460 atkvæði en ekki 470 eins og segir í fréttinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir