Útgáfu Byggðasögunnar fagnað

Hjalti Pálsson afhenti Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra fyrsta eintakið. Mynd: FE
Hjalti Pálsson afhenti Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra fyrsta eintakið. Mynd: FE

Laugardaginn 18. nóvember var haldin útgáfuhátíð í tilefni þess að áttunda bindi Byggðasögu Skagafjarðar hefur litið dagsins ljós. Allnokkur fjöldi fólks sótti samkomuna sem haldin var á gistihúsinu Gimbur á Reykjarhóli á Bökkum en segja má að það sé nokkuð miðsvæðis hvað efni bókarinnar snertir, rétt hjá hreppamörkum þeirra hreppa sem bókin fjallar um, gamla Fellshrepp og Haganeshrepp.

Bjarni Maronsson, formaður útgáfunefndar, setti hátíðina og þakkaði þeim sem að verkinu unnu vel unnin störf. Með Bjarna sitja í nefndinni þau Sigurlaug Ebba Kristjándóttir og Gunnar Rögnvaldsson sem stjórnaði samkomunni.

Höfundar verksins, þeir Hjalti Pálsson og Kári Gunnarsson fluttu ávörp þar sem litið var yfir ferilinn við útgáfu bókarinnar og þeir nefndir til sögu sem þar eiga stærstan hlut að máli. Einnig afhenti Hjalti Ástu Pálmadóttur, sveitarstjóra og staðarhöldurum á Reykjarhóli, þeim Jóni og Sjöfn, fyrstu eintökin.

Áttunda bindi Byggðasögu Skagafjarðar er mikið að vöxtum eða 528 blaðsíður, prýtt fjölda korta og mynda, bæði ljósmynda og teikninga. Í því er, eins og áður segir, fjallað um Fellshrepp sem nær frá Höfðahólum að Stafá, og Haganeshrepp sem spannar svæðið frá Stafá að Miklavatni. Umfjöllun um Haganesvík bíður næsta bindis. Í máli Hjalta kom fram að þetta svæði hefði þá sérstöðu að mestur hluti byggðarinnar er nú kominn í eyði.

Í ávarpi sínu gat Hjalti Pálsson þess að meðgöngutími þessa bindis væri 36 mánuðir, eða nokkru lengri en meðganga fílsins sem gengur með í 22 mánuði. Ritun Byggðasögunnar hefur nú staðið yfir í 21 ár og reiknað er með að á næstu fjórum árum komi út þau tvö bindi sem eftir eru.

Ásta Pálmadóttir ávarpaði samkomuna og þakkaði öllum hlutaðeigandi vel unnið verk. Einnig var lesið úr verkinu og var upplesturinn í höndum þeirra Björns Björnssonar, Fríðu Eyjólfsdóttur og Stefáns Gestssonar. Sveitarfélagið Skagafjörður bauð upp á forláta kaffiveitingar sem þau Sjöfn og Jón á Reykjarhóli sáu um.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir