Útskurðarnámskeið eldri borgara - „Aldrei of seint að byrja“

Flottur hópur útskurðarnema með kennara sínum. F.v.: Jón Adolf Steinólfsson, Pálmi Sighvats, Ásta Ragnarsdóttir, Margrét Pétursdóttir, Steinunn Hjartardóttir, Gunnar Björn Rögnvaldsson, Sigfús Helgason, Ingimar Vilhjálmsson og Sigurjón Gestsson. Á myndina vantar tvo sem voru vant við látnirr er blaðamaður leit við í smíðakennslustofu Árskóla sl. laugardag. Mynd: PF
Flottur hópur útskurðarnema með kennara sínum. F.v.: Jón Adolf Steinólfsson, Pálmi Sighvats, Ásta Ragnarsdóttir, Margrét Pétursdóttir, Steinunn Hjartardóttir, Gunnar Björn Rögnvaldsson, Sigfús Helgason, Ingimar Vilhjálmsson og Sigurjón Gestsson. Á myndina vantar tvo sem voru vant við látnirr er blaðamaður leit við í smíðakennslustofu Árskóla sl. laugardag. Mynd: PF

 Félag eldri borgara í Skagafirði stóð fyrir útskurðarnámskeiði fyrir félagsmenn sína á dögunum. Tíu manns mættu og skáru út í tvo daga undir leiðsögn Jóns Adolfs Steinólfssonar trélistamanni.

„Það var haft samband við mig og sagt að það vantaði eitthvað fyrir kallana en konurnar  komu líka, sem er gott. Þetta er ekki síður fyrir þær,“ segir Jón og bætir við að margir af bestu útskurðarmönnum heims séu kvenfólk.

Jón segir galdurinn við útskurð þann að halda rétt á járnunum og þora. „Ég leiði þau í gegnum fyrstu skrefin að búa til einfalda skál. Síðan læra þau að halda á járnunum og hvernig liggur í viðnum. Síðan þyngi ég verkefnin, næst skerum við út blóm sem er nokkurn veginn í átt að þrívíddarmynd,“ segir Jón og leggur áherslu á að möguleikarnir séu endalausir.

Aðspurður um viðartegundina sem notuð væri á námskeiðinu segir Jón það vera linditré. „En þú getur nýtt þér allan við. Uppáhaldið mitt er íslenskt birki en við fáum það ekki í nógu stórum einingum. Ég persónulega nota allan við.“

Ein kvennanna sem mundaði útskurðarjárnið svo fagmannlega var Margrét Pétursdóttir frá Vesturhlíð en níu ár eru síðan hún hætti sem gangnavörður í Árskóla. Hún var ánægð með námskeiðið sem var hennar fyrsta og þótti gaman.

„Þetta er bara fyrsta vers hjá mér, aldrei of seint að byrja. Ég mæli með þessu og hef beðið um þetta lengi,“ sagði hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir