Veðurhorfur kannaðar með því að skera í milta af kind eða stórgrip

Haustblíða í Glaumbæ. Mynd: KSE
Haustblíða í Glaumbæ. Mynd: KSE

Fyrsti vetrardagur er á morgun, en hann ber ævinlega upp á laugardegi á tímabilinu 21.-27. október. Ekki tíðkast að halda sérstaklega upp á þennan dag en þó er nokkuð um skemmtanahald, svo sem sviðaveislur á þessum árstíma. Fyrr á öldum voru oft haldnar veislur um þetta leyti því þá var mest til af nýju kjöti.

Ýmsir spáðu fyrir um vetrarveður með því að fylgjast með hegðun músa, fugla og fleiri dýra. Aðrir spáðu í stjörnur vetrarbrautarinnar og einnig þekktist að kanna veturhorfur með því að skera í milta af kind eða stórgrip, eins og fram kemur í bókinni Saga daganna eftir Árna Björnsson þjóðhættafræðing.

Á bloggsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings var nýlega fjallað um frostlausa októbermánuði hér á landi. Þeir eru að vísu óþekktir á flestum veðurstöðvum og segir Trausti ólíklegt að  að núverandi október nái að bætast í hóp þeirra frostlausu á mörgum stöðvum. Rifjar hann í því samhengi að í október í fyrra hafi verið frostlaust á 10 veðurstöðvum og einnig hafi víða verið frostlaust í október 2010. Þá hafi október mánuðir árin 1975 og 1976 verið óvenjulegir hvað þetta varðar.

Veðurstofan gerir ráð fyrir suðaustan 5-13m/s og rigningu með köflum á Ströndum og Norðurlandi vestra næsta sólarhring. Hitinn verður á bilinu 8 til 13 stig að deginum. Á sunnudag er spáð suðlægri átt, 5-10 m/s og rigningu en úrkomulitlu um landið norðaustanvert. Hiti veriður á bilinu 7 til 13 stig, hlýjast norðaustan til.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir