Vegvísar landpósta lagfærðir

Galvaskir Rótarýmenn í vörðuviðhaldi. Myndir: Ágúst Guðmundsson.
Galvaskir Rótarýmenn í vörðuviðhaldi. Myndir: Ágúst Guðmundsson.

Árni Guðmundsson var félagi í Rotaryklúbbi Sauárkróks og mætti á alla fundi. Hann lést 11. september 1999. Faðir hans Guðmundur Árnason á Þorbjargarstöðum var landpóstur. Sótti póst Skagabænda til Sauðárkróks , gjarnan ríðandi. Hluti póstleiðarinnar var varðaður eða frá Lambá  norður á brún Kamba rétt ofan Grímsstaða.

Fyrir mörgum árum vakti Árni máls á því að Rotarymenn gerðu við og endurhlæðu vörðurnar á Laxárdalsheiði sem þá voru flestar illa farnar og sumar horfnar. Fyrir þessu máli barðist hann af sinni alkunnu þrautseigju í nokkur ár. Loks var skipuð vörðunefnd og haldið í fyrsta leiðangurinn. Byrjað var á syðstu vörðunum og haldið til norðurs. Nú eru Rotarymenn langt komnir með verkið, aðeins nokkrar vörður eftir norður að brún. En örlögin höguðu því þannig að Árni komst því miður aðeins með í fyrstu  leiðangrana. Þá var hann í essinu sínu og að lokinni hverri viðgerð stillti hann upp dúkuðu borði, raðaði upp flöskum og skenkti púslmönnum sínum sjúss að verkalaunum.  Vörðunefnd Rotaryklúbbsins skipa nú Knútur Aadnegard, Gestur Þorsteinsson og Reynir Barðdal. En hross og kindur nugga sér utan í vörðurnar og þegar nyrsta varðan verður endurbyggð passar að hefja viðgerð á þeirri syðstu.  Fyrir nokkrum dögum voru Rotarymenn á árlegum fundi út á heiði og hlóðu þá myndarlega vörðu rétt við Grímsána. Þótt vörðurnar vísi nú ekki landpóstinum lengur veginn munu þær standa áfram til minningar um gamla tíma og Árna Gúm félaga okkar.

ÁG

Áður birt í Feyki 34. tbl. 2016

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir