Veitt viðurkenning fyrir skyndihjálparafrek

Karl Lúðvíksson, Halla Þóra Másdóttir og Guðný Zoëga hjá Rauða krossinum í Skagafirði veittu Pétri Erni viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek sitt. Auk viðurkenningarskjals fékk hann gjafabréf á skyndihjálparnámskeið og skyndihjálpartösku. Mynd:FE
Karl Lúðvíksson, Halla Þóra Másdóttir og Guðný Zoëga hjá Rauða krossinum í Skagafirði veittu Pétri Erni viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek sitt. Auk viðurkenningarskjals fékk hann gjafabréf á skyndihjálparnámskeið og skyndihjálpartösku. Mynd:FE

Í tengslum við aðalfund Rauða krossins í Skagafirði í síðustu viku var Pétri Erni Jóhannssyni veitt sérstök viðurkenning frá Rauða krossinum vegna skyndihjálparafreks hans á síðasta hausti þegar hann veitti vinnufélaga sínum, Richard Zarikov, fyrstu hjálp þegar hann fór í hjartastopp.

Pétur segir Richard hafa verið í vinnu hjá honum á Áka bifreiðaþjónustu. Richard var kominn til vinnu á undan Pétri þennan morgun en örstuttu eftir að Pétur mætti fékk Richard krampakast sem varði í stutta stund og hneig svo niður, meðvitundarlaus. „Ég byrjaði á að taka púls en hann varð strax náfölur og fór svo að blána. Þegar ég fann engan púls fór ég að hnoða og hringdi svo á neyðarlínuna. Þeir voru mjög snöggir á staðinn, ég held þeir hafi verið innan við fimm mínútur. Ég hélt bara áfram þar til þeir komu og tóku við en það tók þó nokkra stund að ná honum í gang aftur,“ segir Pétur.

Aðspurður um hvernig tilfinning það sé að lenda í svona aðstæðum segir Pétur að þetta sé náttúrulega mjög sérstakt. „Ég gerði mér fljótt grein fyrir því að það væri ekki allt eðlilegt svo ég ákvað að reyna að halda ró minni og byraði að hnoða áður en ég hringdi eftir hjálp. Ég var rólegur allan tímann en eftir að sjúkraliðið var farið þá kláraði ég einn bíl en svo hafði ég ekki orku í meira og fór heim. Þá var klukkan orðin svona hálf ellefu.“ Atvikið varð á föstudagsmorgni og á laugardagskvöld fékk Pétur fréttir af því að Richard væri kominn til meðvitundar. „Það létti nú mikið á að vita að hann væri vaknaður þannig að ég keyrði strax suður á sunnudagsmorgun til þess að kíkja á hann á sjúkrahúsinu.“

Hvetur alla til að læra skyndhjálp

Richard er ungur maður, ekki nema 21 árs, og óvenjulegt er að svo ungt fólk fari í hjartastopp. Pétur segir að engin ástæða hafi fundist fyrir því að þetta gerðist, þrátt fyrir miklar rannsóknir. Richard er nú kominn með gangráð og heilsast vel.

Pétur tók skyndihjálparnámskeið þegar hann var við nám í Fjölbrautarskólanum. „Það er orðið langt síðan,“ segir Pétur, „en kom engu að síður að góðum notum. Persónulega hvet ég sem flesta til að fara á skyndihjálparnámskeið og rifja það upp reglulega. Eftir þetta atvik hef ég talað um það við marga, að þetta sé eitthvað sem fólk þarf að gera, þó svo að mér hafi ekki þótt það áður.“

Rauði krossinn í Skagafirði stendur reglulega fyrir námskeiðum í skyndihjálp. Guðný Zoëga, formaður, segir Rauða krossinn í Skagafirði búa svo vel að að hafa fjóra skyndihjálparkennara í héraðinu og bara á síðasta ári hafi 490 manns komið á 44 námskeið sem haldin voru. Þá hefur Rauði krossinn í Skagafirði gefið grunnskólunum námskeið fyrir 10. bekk. Við lítum svo á að það sé samfélagsleg skylda okkar að koma þessu á framfæri og leggjum mjög mikla áherslu á það,“ segir Guðný.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir