Vel heppnaðir konudagstónleikar

Kvennakórinn Sóldís hélt sína árlegu konudagstónleika í Menningarhúsinu Miðgarði í gær að viðstöddu fjölmenni. Eftir mikið klapp og aukalög buðu kórkonur gestum upp á dýrindis veisluborð.

Það var þéttsetinn salurinn í Miðgarði í gær og eftir að aukaborð og stólar höfðu verið sóttir fyrir síðustu gestina hófust tónleikarnir á lagi Sigurðar Þórðarsonar við ljóð Davíðs Stefánssonar, Sjá dagar koma. Var það sérlega vel flutt hjá þessum afbragðsfína kór og gaf tóninn á flottum konudagstónleikum.

Alls voru sextán lög á dagskránni og voru þau öll vel flutt og af mikilli innlifun. Eins og búast mátti við var kórinn klappaður upp og voru dregin fram skemmtileg aukalög sem greinilega eru í uppáhaldi hjá kórnum. Annað lagið var einkar skemmtilegt og var það skreytt aukahljóðum til að gera það áhrifameira. Þarna var um lagið Baba Yetu eftir Christopher Tin.

Einsöngvarar kórsins, þær Ólöf Ólafsdóttir, Ragnheiður Petra Óladóttir og Íris Olga Lúðvíksdóttir, létu einnig ljós sitt skína og fengu lof fyrir frá ánægðum tónleikagestum.  

Söngstjórinn, Helga Rós Indriðadóttir, nær greinilega vel til söngvaranna og nær að búa til raddmikinn söngflokk og undirleikarinn, Rögnvaldur Valbergsson, smellur vel inn í púsluspilið enda reynslumikill í undirleik og kórstarfi.

Meðfylgjandi myndir voru tekna á tónleikunum í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir