Verksmiðja Heilsupróteins tekin í gagnið

Húsakynni Heilsupróteins ehf. á Sauðárkróki verða opin á morgun laugardag en þá verður hin nýja verksmiðja formlega vígð. Verksmiðjan er í eigu Mjólkursamsölunnar ehf. og Kaupfélags Skagfirðinga. Öllum er boðið að koma og skoða og þiggja léttar veitingar. Sá hluti verksmiðjunnar sem nú verður tekin í notkun markar tímamót í umhverfismálum mjólkuriðnaðarins á Íslandi, en unnið verður hágæða próteinduft úr mysunni sem fellur til í ostagerð á Vestur-, Norður- og Austurlandi og runnið hefur til sjávar fram að þessu.

Áætlað er að hægt verði að framleiða um 300 tonn af þurrkuðu próteindufti á ári, en mysupróteinduft er mikið notað í heilsu- og íþróttavörur og til matvælaframleiðslu.

Einnig verður framleitt ethanól úr mjólkursykri ostamysunnar og einnig úr mysu sem fellur til við skyrgerð. Áætlað er að hægt verði að framleiða um 1,5 milljónir lítra af ethanóli á ári en framleiðslan mun nýtast meðal annars í eldsneyti og vínanda. 

Meðal atriða mun Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ávarpa gesti ásamt þeim Ara Edwald, stjórnaformanns Heilsupróteins ehf. og Pálma Vilhjálmssyni stjórnarmanns og mjólkurverkfræðingi. Þá munu fyrrverandi og núverandi landbúnaðar- og umhverfisráðherrar vígja verksmiðjuna formlega.

„Samstarfið við KS hefur opnað margar dyr og teljum við að hér muni skapast mikil verðmæti með miklum möguleikum á ýmis konar framleiðsluvörum og útflutningi,“ segir Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar og stjórnarformaður Heilsupróteins. „Með þessu framtaki viljum við einnig leggja okkar á vogarskálarnar í umhverfismálum í okkar framleiðslu og á sama tíma nýta hráefni til fulls.“

„Sú nýsköpun sem hefur átt sér stað við nýtingu þessa hráefnis er það sem koma skal í landbúnaði og erum við hjá Kaupfélagi Skagfirðinga virkilega stolt af því að taka þátt í slíkri vinnu. Okkur finnst einnig mikilvægt að vera fyrirmynd annarra fyrirtækja, þá sérstaklega matvælaframleiðenda þegar kemur að nýsköpun og umhverfismálum,“ segir Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS.  

Meðfylgjandi myndir eru teknar á ýmsum stigum smíði verksmiðjuhússins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir